Opnað verður fyrir aukið aðgengi að Grindavíkurbæ í dag um Nesveg og Suðurstrandarveg að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Úlfar segir að hættur í Grindavík séu kannski ekki margar í augnablikinu og það sé meðal annars þess vegna sem menn treysta sér til þess að opna fyrir umferð inn í bæinn.
„Það verða opnaðar leiðir inn í Grindavík um Nesveg og Suðurstrandarveg en það verður áfram lokað inn í Svartsengi til þess að verja þá vinnu sem þar er í gangi,“ segir Úlfar við mbl.is en tugir manna eru við vinnu á Svartsengissvæðinu við að styrkja varnargarðana og við hraunkælingu.
Hann segir að það verði lokunarpóstur á Grindavíkurveginum við þéttbýlið og eins og á Grindavíkurvegi við Reykjanesbrautina.
Úlfar segir að gist hafi verið í 42 húsum í Grindavík síðastliðna nótt og það sé sá hópur sem hafi gist inni í bænum að undanförnu.
Hann segir að alltaf sé eitthvað um að ferðamenn séu til vandræða nálægt gosstöðvunum en þótt dregið hafi úr krafti gossins sé enn að malla talsvert úr því og það geti dregist á langinn að því ljúki.
„Í gærkvöld höfðum við áhyggjur af frönskum ferðamönnum sem voru þarna á vappi. Þeir voru illa áttaðir og vanbúnir til ferðar en það leysist úr því máli hratt og örugglega. Það eru alltaf einhver svona tilfelli en þau eru sem betur fer ekki mörg,“ segir lögreglustjórinn.