Stefnir Snorrason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, var staddur fyrir framan Orkuveituhúsið í morgun fyrir hönd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þar sem Guðlaugi Þór Þórðarsyni ráðherra og Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar, var „bjargað“ niður af 5. hæð.
Uppákoman var hluti af eldvarnarátaki sambandsins sem er núna haldið 32. árið í röð. Það snýst um að hitta þriðju bekkinga í öllum skólum landsins, kenna þeim á eldvarnir og senda þá heim með ákveðin verkefni til að að ýta við foreldrum sínum.
„Við erum að kenna þeim á nauðsyn þess að hafa reykskynjara í lagi, kenna þeim að hringja í neyðarlínuna 112 ef upp kemur vá, við erum að ræða við þau um flóttaleiðir, hvað ber að gera og hvernig þau eiga að haga sér ef þau lenda í einhverri hættu og þurfa að koma sér út úr byggingum. Þetta eru hlutir sem þau verða að ræða við foreldrana og foreldrarnir verða að taka virkan þátt í þessu til að samskipti foreldra og barna verði góð,“ segir Stefnir, sem ræddi við blaðamann á meðan verið var að „bjarga“ þeim Guðlaugi Þór og Sævari Frey.
Spurður hvernig honum líst á „björgunina“ úr Orkuveituhúsinu segir hann alla vera berskjaldaða ef upp kemur eldur, sama í hvaða stétt þjóðfélagsins þeir eru. „Menn eru snillingar á sínum sviðum en kannski ekki í þessari hættu. Slökkviliðsmenn bjarga öllum, alveg sama hver þú ert, ráðherra líka.“
Stefnir áréttar jafnframt mikilvægi þess að hlaða ekki rafmagnstæki á borð við rafhlaupahjól með litíum-rafhlöðum undir sæng eða uppi í rúmi, svo dæmi séu tekin, og ekki í anddyrum húsa. Þetta eigi frekar að gera á vel loftræstum stöðum. Annars sé eldhætta alltaf til staðar og ef rafhlöðurnar eru skemmdar sé ávallt hætta á að skammhlaup verði.
„Ef þú hefur þetta í jafnvel einu flóttaleiðinni í íbúðinni þá ertu í vanda staddur. Það skiptir miklu máli að virða þessa hluti,“ greinir Stefnir frá og segir best að hlaða þessi hjól úti á svölum þar sem góð kæling er til staðar. Slæmir eldsvoðar hafi orðið þegar kviknað hafi í rafhlaupahjólum innandyra.