„Í viðræðum við Vegagerðina fyrir forvalið skildum við verkefnið þannig að það væri valkvætt hvort verktakinn fjármagnaði Ölfusárbrú eða ekki. Þegar við fengum síðan gögnin var það ekki lengur valkvætt heldur skylda,“ segir Karl Andreassen forstjóri Ístaks um þá kröfu ríkisins að framkvæmdaraðili fjármagi byggingu Ölfusárbrúar.
ÞG Verk var eina fyrirtækið úr forvalshópi sem skilaði inn tilboði og telur Karl ástæðuna fyrir því vera þá að Vegagerðin breytti forsendum útboðsins.
„Ef við hefðum vitað fyrir fram að það væri skylda að fjármagna framkvæmdina hefðum við sett saman annað teymi og fengið með okkur fjármögnunaraðila sem hefði verið tilbúinn að fjármagna framkvæmdina og þá hefðum við verið undirverktakar hans.“
Hann segir að á þeim tíma hafi Ístak verið búið að setja saman hóp sem hafði áhuga á að taka að sér framkvæmdina, en hafði ekki áhuga á að fjármagna verkið.
„Við útskýrðum þetta allt fyrir Vegagerðinni hvernig við litum á þetta og sendum fyrirspurn um hvort við mættum breyta teyminu þannig að við byðum í verkið með fjármögnunaraðila, en því var ekki svarað.“
Spurður hvaða breytingar Ístak hefði þurft að gera á teymi sínu til að skila inn fullfjármögnuðu tilboði segir Karl að fyrirtækið hefði þurft fjármögnunaraðila með sér, sem hefðu tekið fjármögnunina inn á sínar bækur.
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.