Orðið fæðuöryggi er oft nefnt þegar rætt er um landbúnað og mikilvægi hans. Gestur Dagmála í dag er formaður Samtaka ungra bænda á Íslandi. Steinþór Logi Arnarsson ræðir í viðtalinu hugtakið fæðuöryggi. Hann vitnar til skýrslu sem unnin var af Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir Matvælaráðuneytið. Þar kom í ljós að „við værum nokkuð góð í þrjár vikur,“ eins og Steinþór orðar það. Eftir það gætum við þurft að fækka hrossum. Sem þýðir einfaldlega að slátra þeim og borða.
Þegar rætt er um fæðuöryggi er vitnað til alls er málið varðar. Flutningskeðja og hver lagerinn í landinu er. Steinþór nefnir þessa skýrslu sem gefin var út fyrir rúmum þremur árum, þar sem greint var í þaula hver staðan er komi til atburða sem geta haft mikil áhrif á landbúnað og flutnings til landsins. Þar vitnar hann til Covid faraldursins sem setti margt út skorðum. Sömuleiðis er horft til stríðsátaka eins og staðið hafa í Úkraínu undanfarin ár.
„Fæðuöryggi er mælikvarði á, og oft notað fyrir þjóðir eða lönd og á sérstaklega við í okkar tilviki þar sem við erum eyja í Atlantshafinu, hversu örugg erum við um það að fólk hafi mat að borða,“ útskýrir Steinþór.
Hann vitnar til þess að vissulega búi Íslendingar vel þar sem mikið sé af fiski í sjónum og hægt væri að fjölga fiskimáltíðum. En á sama tíma bendir hann á að við lifum viðsjárverða tíma. „Það sá enginn Covid fyrir. Það sem hefur aldrei gerst getur gerst aftur, segja menn það ekki í dag?“ segir hann í spaugi og alvöru.
Fæðuöryggið sem greint var í áðurnefndri skýrslu tekur ekki einvörðungu til kjötframleiðslu. Þar er í raun allt undir, segir Steinþór og vitnar til kornafurða sem dæmi. Þá segir hann að mikilvægur þáttur sé hversu mikill lager er til í landinu hverju sinni.
25 ára gamall sauðfjárbóndi deilir hér sýn sinni á landbúnað á Íslandi í Dagmálum í dag. Hann er fulltrúi nýrrar kynslóðar bænda sem er að taka við þessari mikilvægu atvinnugrein.