Fyrsti Íslendingurinn í stjórn YFJ

Sara Þöll Finnbogadóttir nýkjörin stjórnarmeðlimur YFJ.
Sara Þöll Finnbogadóttir nýkjörin stjórnarmeðlimur YFJ. Ljósmynd/Aðsend

Sara Þöll Finnbogadóttir hefur hlotið kjör í stjórn Evrópska ungmennavettvangsins (YFJ), fyrst Íslendinga.

YFJ eru stærstu regnhlífasamtök alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka og landssambanda ungmennafélaga í Evrópu sem vinna að hagsmunum og réttindum ungs fólks.

Sara var kjörin á aðalþingi samtakanna í Gent í Belgíu þann 22. nóvember.

„Þetta er stór áfangi fyrir ungt fólk á Íslandi, að geta tekið þátt og haft veruleg áhrif á réttinda- og hagsmunabaráttu ungs fólks í Evrópu og í öllum heiminum,“ er haft eftir Söru í tilkynningu frá Landssambandi ungmennafélaga.

Tilvonandi doktorsnemi

Landssamband ungmennafélaga (LUF) er eitt af yfir hundrað aðildarfélögum Evrópska ungmennavettvangsins en sambandið tilnenfdi Söru í stjórn YFJ. LUF eru regnhlífarsamtök fyrir félagasamtök ungs fólks á Íslandi og eru þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur.

Sara Þöll er tilvonandi doktorsnemi í stjórnmálafræði og lauk nýverið meistaragráðu frá University of Michigan í Ann Arbor í Bandaríkjunum í kannana- og gagnavísindum, þar sem hún hlaut Fulbright-styrk.

Áður starfaði hún sem aðstoðarmaður við rannsóknir fyrir Íslensku kosningarannsóknina og sem varaforseti og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands 2020-2022, í umboði Röskvu. Sara situr í stjórn Félags íslenskra stjórnmálafræðinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert