Hafa selt ríflega 30 milljónir bóka samtals

Samtals hafa rithöfundarnir þrír því selt ríflega 31 milljón eintaka …
Samtals hafa rithöfundarnir þrír því selt ríflega 31 milljón eintaka af verkum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er mikill galdur að skrifa verk sem höfða til fólks hvar sem er á jarðarkringlunni. Í því er Arnaldur snillingur og um það vitna þær ríflega 20 milljónir eintaka sem selst hafa af verkum hans út um allan heim,“ segir Valgerður Benediktsdóttir, umboðsmaður á Reykjavik Literary Agency.

Nýleg samantekt á sölu á bókum spennusagnahöfundarins Arnaldar Indriðasonar sýnir að hann hefur selt yfir 20 milljónir bóka á heimsvísu. Það eru hreint ótrúlegar tölur og kemst enginn íslenskur höfundur í námunda við þennan árangur.

Arnaldur er þó ekki eini íslenski spennusagnahöfundurinn sem hefur náð miklum vinsældum úti í heimi. Auk hans hafa þau Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson notið mikilla vinsælda. Nýjar tölur frá útgefanda þeirra sýna að Yrsa hefur selt yfir sex milljónir eintaka og Ragnar er að nálgast fimm milljónir.

Tíu milljónir síðustu fimm ár

Samtals hafa þau þrjú því selt ríflega 31 milljón eintaka af verkum sínum. Þegar Morgunblaðið tók saman sölu þeirra þriggja árið 2019 höfðu þau nýverið rofið 20 milljóna eintaka múrinn og hafa því selt rúmlega tíu milljónir eintaka síðustu fimm árin.

Útgefendur og umboðsmenn höfundanna íslensku eru sammála um að mikil vinna liggi að baki velgengni þeirra ytra.

„Ég segi oft að Mýrin eftir Arnald hafi breytt lífi mínu. Það er sú bók hans sem fyrst náði í gegn á alþjóðavettvangi. Við að selja útgáfuréttinn að henni eignaðist ég vini út um allan heim og þær vinsældir sem bækur hans náðu í kjölfarið vörpuðu í leiðinni kastljósinu á fjölmarga aðra íslenska höfunda sem við gátum selt í kjölfarið. Þetta hefur verið stórkostlegt ferðalag og ég hugsa oft um það hve miklu skiptir að þora að veðja á óþekktan höfund ef tilfinningin segir manni það. Það er vissulega áhætta – en hugsaðu þér bara hvað það hafði í för með sér í þessu tilfelli Arnaldar,“ segir Valgerður.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert