Hvatti kjósendur til þess að greiða ógild atkvæði

Dagur stefnir á þing.
Dagur stefnir á þing. mbl.is/Karítas

Dagur B. Eggertsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, hvatti í gær kjósendur Sjálfstæðisflokksins til þess að greiða ógild atkvæði með því að strika yfir nafnið hans, en hann er í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Baldvin Jónsson athafnamaður hafði sett inn færslu á vegginn sinn síðdegis á laugardag og sagt þar:

„Nú má auka D vítamínið í eina viku. Taka eina töflu fyrir svefninn og eina áður en maður vaknar. XD“

Aukin kalkupptaka

Þessu svaraði Dagur og kvaðst dást að Baldvini fyrir seigluna, áður en hann gaf nokkur læknisráð:

„Minni þó mildilega á, svo vitnað sé til opinberrar vefsíðu. Of mikið af D-vítamíni getur leitt til aukinnar kalkupptöku úr meltingarveginum og jafnvel endurupptöku kalks úr beinum. Aukið kalkmagn í blóði getur haft í för með sér óeðlilegar kalkútfellingar í mjúkum vefjum, svo sem hjarta og lungum, og dregið þannig úr starfsgetu þeirra. Helstu einkenni eru vöðvaslappleiki, höfuðverkur, lystarstol, ógleði, uppköst og beinverkir. Bestu kveðjur í baráttuna.“

Því svaraði Magnús Rúnar Kjartansson á þennan veg, klukkan 4 aðfaranótt sunnudags:

„Ætlar þú virkilega að bjóða þig fram sem mikinn reynslubolta í pólitík?? Kanntu ekki að SKAMMAST ÞÍN.“

Þessum ummælum svaraði Dagur morguninn eftir, upp úr klukkan 11, og sagði:

„Já, hvet alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika yfir mig.“

Var að reyna að vera fyndinn

Kristín Edwald, formaður Landskjörstjórnar, segir í samtali við mbl.is að atkvæði teljist ógilt ef kjósandi strikar yfir frambjóðanda á öðrum lista en hann sjálfur kýs.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði ummælum Dags í morgun og spurði hvort að hann væri nokkuð að reyna að rugla fólk í ríminu og „stuðla að því að kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem setja X við D og strika yfir þig og gera þannig atkvæði sitt dautt og ógilt“.

Dagur svaraði því fyrir fáeinum klukkutímum og sagði að hann hefði nú aðeins verið að reyna að vera fyndinn.

Lögbrot að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar

Í kosningalögum segir að það sé minni háttar brot að gefa „út villandi kosningaleiðbeiningar“.

Fyrst var fjallað um ummæli dags á Vísi í morgun, en ekki vikið að því að ef kjósendur færu að ráðum Dags þá myndu atkvæðin falla dauð.

Rúmum klukkutíma síðar birti Vísir frétt þar sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kom því á framfæri að það myndi ógilda atkvæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert