Kattarþjófurinn náðist á mynd: Gerðist á augabragði

Kattarránið náðist á upptöku í öryggismyndavélum A4.
Kattarránið náðist á upptöku í öryggismyndavélum A4.

Versl­un­ar­stjóri A4 í Skeif­unni seg­ir það sjást skýrt í ör­ygg­is­mynda­vél­um að ein­stak­ling­ur gekk rak­leiðis upp að kett­in­um Díegó þar sem hann svaf í bæli sínu og tók hann ófrjálsri hendi.

At­vikið hef­ur vakið mik­inn óhug meðal fylgj­enda Diegó sem deila iðulega mynd­um og sög­um af hon­um í Face­book-hópn­um Spottaði Diegó.

Hóp­ur­inn tel­ur nú um 16 þúsund manns en þar spurðist fljótt út um hvarf Diegós í gær­kvöldi og hafa marg­ir lagt orð í belg varðandi mögu­lega at­b­urðarás eða spurst fregna í hópn­um.

Fólk slegið yfir hvarf­inu

Diegó er ekki villikött­ur eins og marg­ir halda held­ur býr hann hjá eig­end­um sín­um í grennd við Skeif­una og er því ein­ung­is tíður gest­ur í versl­un­um þar. Raun­ar svo tíður að hann á sitt eigið bæli í A4.

„Við opn­um ekki fyrr en klukk­an 9 en hann bíður oft hérna eft­ir mér fyr­ir utan þegar ég mæti klukk­an 8,“ seg­ir Sig­ur­borg Þóra Sig­urðardótt­ir, versl­un­ar­stjóri A4.

Hún seg­ir það jaðra við að hver ein­asti viðskipta­vin­ur í dag hafi spurst fyr­ir um fregn­ir af leit­inni að kett­in­um enda sé hann afar vin­sæll meðal starfs­fólks og komu­gesta.

„Fólk er svo­lítið slegið yfir þessu, að það komi bara ein­hver og taki kött­inn.“

Diegó var tekinn ófrjálsri hendi þar sem hann svaf vært …
Diegó var tek­inn ófrjálsri hendi þar sem hann svaf vært í bæli sínu í versl­un­inni. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Kann­ast ekki við viðkom­andi

Sig­ur­borg og aðrir versl­un­ar­stjór­ar í Skeif­unni litu í gegn­um ör­ygg­is­mynda­vél­ar sín­ar eft­ir að kona á Face­book kvaðst hafa séð mann­eskju með kött­inn meðferðis í stræt­is­vagni í gær­kvöldi.

Seg­ir Sig­ur­borg upp­tök­una sýna mann­eskju ganga upp að Diegó þar sem hann sef­ur vært, taka hann og ganga út úr versl­un­inni. Starfs­fólk A4 kann­ist ekki við ein­stak­ling­inn sem sjá­ist á upp­tök­unni.

„Starfs­fólkið mitt var ekk­ert að átta sig á þessu því allt í einu var hann bara horf­inn.“

Hún seg­ist sjálf hafa haft sam­band við eig­anda Diegó og boðið henni að til­kynna lög­regl­unni um upp­tök­urn­ar, enda geti hún ekki af­hent ör­ygg­is­upp­tök­ur til annarra en lög­regl­unn­ar.

Von­ar að þjóf­ur­inn sjái sóma sinn í að skila Diegó

Henni skilj­ist einnig að haft hafi verið sam­band við Strætó til að óska eft­ir upp­tök­um úr ör­ygg­is­mynda­vél­um.

Sig­ur­borg seg­ir erfitt að ímynda sér hvað vaki fyr­ir ein­stak­lingi sem steli gælu­dýri. Það kunni alls kon­ar að liggja þar að baki, mögu­lega ein­hver geðrænn vandi. Hún von­ast fyrst og fremst til þess að Diegó finn­ist á vappi eða verði skilað sem allra fyrst.

„Við von­um bara að viðkom­andi sjái sóma sinn í að skila kett­in­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert