Steinþór Logi Arnarsson er einn af yngstu fjárbændum landsins. Hann og kona hans reka sauðfjárbú með 600 fjár á húsi í vetur. Hann ber mikla virðingu fyrir íslensku sauðkindinni. „Kindur eru afbragðs gáfaðar skepnur heilt yfir og sumar eru gáfaðri en aðrar,“ upplýsir hann í viðtali í Dagmálum í dag.
Hvernig sérðu það?
„Ef við tökum sem dæmi að núna hafa verið gerðar óformlegar rannsóknir á hegðun þeirra á beitarlöndum. Þegar þær eru frjálsar og geta farið það sem þær vilja þá eiga þær sína staði.“ Hann tekur sem dæmi kind sem fylgst hefur verið með og segir að hún fari um miðjan júní og kanni sprettuna í tilteknum dal. Ef beitin þar er ekki tilbúinn að hennar mati fer hún til baka og bíður nokkra daga þar til gróður hefur náð þeim þroska sem hún telur æskilegt. Þegar svo er komið mætir hún á nýjan leik með lömbin og heldur þar til allt sumarið. Þegar fer að hausta finnur hún að það sé kominn tími til að halda heim og gerir það.
Hann viðurkennir að hann þekkir þær ekki allar sex hundruð með nafni en segir á móti að allar kindur séu samt karakterar og hann þekkir þá karaktera sem skera sig úr. „Dýr eru skynverur sem eru mjög hugsandi,“ segir Steinþór.
Hann er formaður Samtaka unga bænda en þau samtök telja tæplega fjögur hundruð manns. Steinþór ræðir í Dagmálaþætti dagsins stöðuna í landbúnaði á Íslandi og þær fjölmörgu áskoranir sem þar blasa við. Hann telur fjölmörg tækifæri blasa við og er jákvæður á framtíð landbúnaðarins. Hann var í hópi Bændasamtaka Íslands sem nýlega lauk fundaröð um allt land þar sem staða bænda og landbúnaðar var rædd og krufin.
Með fréttinni fylgir brot úr viðtalinu þar sem Steinþór ræðir meðal annars gáfnafar kinda en þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.