Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Orkuveitunnar, var „bjargað“ út úr „brennandi húsi“ í morgun.
Uppákoman var hluti af árlegu eldvarnarátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem stendur nú yfir. Slökkviliðsmenn um allt land taka í þátt í átakinu sem snýst um að efla eldvarnir á heimilum til að vernda líf, heilsu og eignir fólks.
Guðlaugur Þór og Sævar Freyr voru staddir á fimmtu hæð Orkuhússins í Reykjavík þegar þeir voru sóttir þangað er sett var á svið rýming í húsinu. Allt saman gekk vel og þegar blaðamaður ræddi við þá félaga er niður var komið voru þeir hinir hressustu.
Spurður út í tilfinninguna við að láta „bjarga sér“ niður af 5. hæð, sagðist Guðlaugur Þór hafa verið í mjög öruggum höndum.
„Það sem ég tek úr þessu er hvað það er mikilvægt að eiga þetta öfluga og góða fólk sem er með góðan búnað, því að öllu gamni slepptu þá eru þetta aðstæður sem maður getur lent í og maður finnur það frá fyrstu mínútu hvað þetta er allt saman öruggt, það er sannarlega ekkert fát. Þetta er vel skipulagt fólk sem gerir þetta einstaklinga vel, þannig að við hinir tveir lofthræddu komum held ég báðir bara mjög vel frá þessu,“ sagði ráðherrann.
Sævar Freyr viðurkenndi að hafa alltaf verið lofthræddur og því hefði þetta verið svolítið skef fyrir sig að taka. Hann sagði að fyrir fólk í raunverulegri hættu líði sekúndurnar sem svona björgun tæki eflaust eins og margar mínútur. Við svona aðstæður skipti öflugur tækjabúnaður mjög miklu máli.
„Maður getur rétt ímyndað sér hvernig það er fyrir fólk sem stendur í því að vera með eld og reyk fyrir aftan sig og þarf að bjarga úr svona aðstæðum, þetta eru örugglega mjög erfiðar aðstæður að vera í. En fyrir lofthræddan að stíga út og taka skrefið, þetta var nánast eins og að ganga upp nokkur skref í tröppu þegar á hólminn var komið,“ sagði Sævar Freyr.
Spurður sagðist Guðlaugur Þór aðallega hafa verið smeykur áður en honum var „bjargað“.
„Þú finnur hvað þessir menn og konur sem halda utan um þetta, þau eru bara svo með þetta. Eins og Sævar nefndi þú ert með góðan búnað, vel þjálfað, öruggt fólk, þannig að þetta var miklu, miklu, miklu auðveldara en ég hélt,“ sagði ráðherrann og hló dátt.
Eftir að Guðlaugur Þór og Sævar Freyr voru komnir niður fengu þeir, ásamt starfsfólki og gestum, þjálfun hjá starfsmönnum Bráðalausna, þeirra Þorsteins Gunnarssonar og Höskuldar Einarssonar, í notkun slökkvibúnaðar. Kennd voru grunnatriði í eldvörnum heimilisins og notkun eldvarnarteppis og slökkvitækja.
„Almennt er fólk duglegt að vera með þessi tæki á heimilunum en alltaf má betur gera og svo þarf fólk líka að kunna að nota þau,“ sagði Þorsteinn, að kennslunni lokinni.
„Mín ráðlegging til fólks hvað varðar þessi málefni er að vera með reykskynjara því að það er númer eitt tvö og þrjú. Það er það sem hjálpar fólki mest, hann vekur fólk á nóttinni ef það kviknar í og lætur fólk vita og þá getur það brugðist við,“ sagði hann en nefndi einnig að frábært væri að eiga líka slökkvitæki og eldvarnarteppi.