Birgitta Jónsdóttir, fyrrum þingmaður Pírata, telur það fjarri upphaflegum gildum Pírata að flokkurinn eigi að vera stjórntækur. Í grunninn hafi hann verið flokkur sem skilgreindi sig ekki sem stjórnmálaflokk heldur „hreyfingu eða hreinlega partý sem hafði frjóan jarðveg og hugmyndafræði til að búa til öfluga grasrót.“
Telur hún flokkinn þurfa að endurvekja „pönkið“ í sér og að á síðustu árum hafi hann orðið eins konar diet-Samfylking ólíkt því sem var þegar Píratar komu fram á sjónarsviðið.
Segir Birgitta að í kjölfar vinsælda hans hafi komið fram hávær krafa um að Píratar þyrftu að vera stjórntækir og að búa til stefnu í öllum málaflokkum og að markmiðið ætti að vera að komast í ráðherrastól.
„Þegar Píratar leystu landfestar var markmiðið ekki að komast í ríkisstjórn, heldur að finna leiðir til að vinna þvert á flokka óháð því hvaða stöðu við værum í. Að finna glufur í kerfinu til að gera stórar breytingar og nota skapandi hugsun til að vinna að langtímamarkmiðum. Það er alrangt að við höfum verið einhvers konar Samfylking light,“ segir Birgitta.
Besta ráð sem hún getur gefið Pírötum og stjórnmálafólki almennt sé að fara óttalaust inn í hvert kjörtímabil án þess að velta fyrir sér næsta kjörtímabili.
„Þá mun löngunin til að halda áfram á þingi aldrei hafa áhrif á verk þín, heldur muntu nýta tíma þinn til fullnustu, án ótta við að vera ekki þingtækur eða stjórntækur. Í mínum huga er hin sanna merking þess að vera stjórntækur að vera alveg sama hvað fólki í öðrum flokkum finnst um mann, að vera stjórntækur er að vera trúverðugur í augum þeirra sem treysta þér til að gæta að hagsmunum lands og þjóðar,“ segir Birgitta.
Segir hún flokkinn nú eins konar diet Samfylkingu en telur jákvætt að sjá nýtt fólk eins og Lenyu Rún stíga fram á sjónarsviðið og ber Birgitta þá von að hún geti leitt flokkinn að grunngildum hans sem sannarlega aðgreini Pírata frá öðrum flokkum.
„Meira pönk, minni umbúðir. Erindi Pírata var og ætti enn að vera að tryggja mannréttindi í stafrænum heimi, upplýsingafrelsi, gagnsæi, tjáningarfrelsi og aðgengi almennings að ákvarðanatöku um hluti sem varða hann með því að gefa fólki verkfæri til að upplifa raunverulega valdeflingu,“ segir Birgitta.
Að lokum óskar hún fulltrúum flokksins góðs gengis í komandi kosningum.