Vinna við undirbúning að koma upp nýju rafmagnsmastri innan varnargarðsins við Svartsengi er hafin og er stefnt að því að koma línunni í rekstur eins fljótt og hægt er og aðstæður leyfa.
„Eitthvað af efninu er komið á staðinn og í dag verður byrjað að reisa undirstöður fyrir mastrið sem verður sett saman á staðnum og verður reist í kjölfarið,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Landsneti, í samtali við mbl.is.
Steinunn segir að það taki nokkra daga að koma mastrinu saman og þegar þeirri vinnu ljúki verður hafist við að tengja línuna. Hún segir að um eða eftir næstu helgi verði vonandi hægt að taka línuna í rekstur á nýjan leik.
Mastrið sem verður sett upp er stálgrindarmastur og er öðruvísi en þau möstur sem fyrir eru á línunni en það er hærra og léttbyggðara. Steinunn segir að Landsnet hafi átt varamastur af þessari gerð sem hentaði vel og styttir aðgerðartímann.