25,5 milljarða króna spor

Soffía Eydís Björgvinsdóttir, lögfræðingur og meðeigandi að KPMG, flytur gestum …
Soffía Eydís Björgvinsdóttir, lögfræðingur og meðeigandi að KPMG, flytur gestum Skjaldborgarbíós á Patreksfirði erindi sitt. Ljósmynd/Innviðafélag Vestfjarða

Samfélagsspor Vestfjarða síðustu fimm ár var 25,5 milljarðar króna og hefur meira en fimmfaldast á þeim tíma. Þetta kom fram á fundi Innviðafélags Vestfjarða í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði sem greint er frá í fréttatilkynningu félagsins og haldinn var nú undir kvöld.

Hófst fundurinn með erindi Soffíu Eydísar Björgvinsdóttur, lögfræðings og meðeiganda að endurskoðunar- og bókhaldsfyrirtækinu KPMG, sem kynnti niðurstöður greiningar á skatta- og samfélagsspori Vestfjarða.

„Í erindi hennar kom fram að árið 2019 skilaði hver íbúi Vestfjarða 1,49 milljónum króna til ríkisins en árið 2023 var sú tala komin í 2,06 milljónir króna. Sé þetta sett í samhengi koma 3,1% af útflutningstekjum Íslands frá Vestfjörðum en Vestfirðingar teljast 1,9% íbúa landsins,“ segir í tilkynningunni.

Áhersla á skýran lagaramma

Því næst kynnti Hjörtur Methúsalemsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Arnarlaxi, framtíðarsýn fiskeldis á Vestfjörðum fram til ársins 2035.

Lagði Hjörtur áherslu á að lagarammi greinarinnar yrði vera skýr, mesta hindrunin væri stefnuleysi stjórnvalda á vettvangi fiskeldis. Hjörtur tíundaði nauðsynlega innviði til að bjartasta framtíðarsýn gæti raungerst og kvaðst treysta á samheldni Vestfirðinga til að byggja öflugt samfélag, innviði og atvinnulíf.

„Lagði hann áherslu á uppbyggingu innviða svo Vestfirðir gætu orðið eitt atvinnusvæði en nú starfa 900 manns við fiskeldi á Vestfjörðum og gangi hógværasta spá eftir verða starfsmenn eldisins á Vestfjörðum orðnir 2.500 manns árið 2032. Á sama tíma myndu skattar og gjöld fiskeldisins fara úr þremur upp í 20 milljarða króna,“ segir svo.

Sannarlega borð fyrir báru

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu stýrði fundinum en opið var fyrir fyrirspurnir úr sal. 

„Vestfirðingar hafa undanfarin ár bent á innviðaskuld sem hefur safnast upp í fleiri áratugi og kallað eftir að hún verði jöfnuð með átaki í samgöngum. Á fyrirlestrum dagsins mátti ljóst vera að sannarlega er borð fyrir báru að jafna innviði Vestfjarða við aðra landshluta eins og Innviðafélag Vestfjarða hefur ítrekað vakið athygli á,“ segir að lokum í fréttatilkynningu Innviðafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka