Fyrstu vetrarkosningar síðan 1979

Kjörkassar tilbúnir fyrir kosningarnar 29. október 2016. Nú er kosið …
Kjörkassar tilbúnir fyrir kosningarnar 29. október 2016. Nú er kosið mánuði síðar, spáin rysjótt og kannski ekki á vísan að róa með að komast á kjörstað. Spyrjum að leikslokum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við búum á landi þar sem allra veðra er von og akkúrat núna er veðurspáin mjög óviss,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar í samtali við mbl.is um möguleikann á vályndum veðrum á kosningadag og þá varnagla sem kjörstjórnir víða um land hafa slegið fari allt í bál og brand.

Íslendingar hafa ekki gengið til alþingiskosninga um hávetur síðan í desember 1979 og ef marka má registur sjálfs Alþingis verða kosningarnar 30. nóvember þær þriðju á vetrarmánuðum síðan tekið var að kjósa sama dag, eða daga, um land allt árið 1908. Árið 1919 var kosningadagur 15. nóvember og 1979 var kosið 2. og 3. desember.

Ellegar hafa kosningar langoftast verið í júní, tólf sinnum, átta sinnum í október, sjö sinnum í apríl og þrisvar í maí þar sem athygli vekur að allar þrennar kosningarnar komu í röð, árin 1999, 2003 og 2007. Er landskjör hér ekki talið með sem fór fram fjórum sinnum, árin 1916, 1922, 1926 og 1930. Laugardagur hefur verið vinsælastur kjördaga frá 1908 og hefur landinn síðan gengið 20 sinnum til kjörklefa á laugardegi, kosningar utan kjörstaðar vitanlega ekki taldar með.

Spár standist ekki alltaf

En aftur að framkvæmdastjóra landskjörstjórnar. Ástríður segir kjörstjórnir landsins nú þurfa að fylgjast með spám frá degi til dags og taka stöðuna. „Við vitum að spárnar standast ekki alltaf, stundum er veðrið verra og stundum betra og stundum koma lægðir nær eða fara hraðar yfir,“ segir hún og minnist á síðustu alþingiskosningar um hávetur – í desember 1979.

Lundar hafa ekki kosningarétt til Alþingis enn sem komið er. …
Lundar hafa ekki kosningarétt til Alþingis enn sem komið er. Það hafa þó margir aðrir íbúar Grímseyjar og þaðan þarf að koma atkvæðaseðlum í kjörkössum. Kjörstjórnir landsins eru við öllu búnar fyrir helgina. mbl.is/Anton Guðjónsson

Til að hafa vaðið fyrir neðan sig hafa landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir í kjördæmum landsins komið sér upp þrískiptri aðgerðaáætlun verði vetur konungur óbilgjarn á kosningadag. Ástríður greinir nánar frá þessu.

„Við áttum fund í dag, skrifstofa landskjörstjórnar og formenn yfirkjörstjórna landsbyggðarkjördæmanna [...] Á fundinum settum við upp þrjár sviðsmyndir. Sú fyrsta er að kjördagur fari fram með hefðbundnum hætti, kosning gangi vel fyrir sig og flutningar á atkvæðum og kjörgögnum gangi eftir þótt eitthvað þurfi mögulega að moka aukalega,“ segir Ástríður og kveður Vegagerðina einnig koma að borðinu og muni hún halda þeim vegum opnum sem þurfi þyki svo lengi sem það teljist forsvaranlegt.

Þriðji möguleikinn sá sísti

„Sviðsmynd B lýtur að því að kosningin gangi ágætlega yfir daginn en dráttur verði á talningu, hún frestist eða henni seinki eða önnur vandamál verði,“ heldur Ástríður áfram. Þar með seinki fregnum af tölum og inn í fléttist sá möguleiki að skipa umdæmiskjörstjórnir sem heimild hefðu til að telja atkvæði í einstökum bæjarfélögum.

Ástríður Jóhannesdóttir er framkvæmdastjóri landskjörstjórnar og segir af þrískiptri viðbragðsáætlun …
Ástríður Jóhannesdóttir er framkvæmdastjóri landskjörstjórnar og segir af þrískiptri viðbragðsáætlun sem byggist á helsta óvissuþætti helgarinnar fyrir utan skipan þingsæta – veðrinu. Ljósmynd/Aðsend

Þetta hafi formenn yfirkjörstjórna undirbúið og hægt verði að grípa til þessa ráðs blási vindar á þann veginn.

„Þriðja sviðsmyndin er sú sísta í okkar huga og felst í því að fresta þurfi kosningum á einhverjum stöðum, til þess er heimild í kosningalögum sem hefði þær afleiðingar að þá myndi talning líka frestast á landsvísu.

Vegna þess að ekki er æskilegt að úrslit fréttist til staða sem ókosið er á?

„Já, einmitt, en kosningalögin tilgreina að talning megi ekki fara fram fyrr en kosningu alls staðar sé lokið,“ svarar framkvæmdastjórinn. Þetta þurfi að meta með tilliti til aðstæðna, afleiðingar áætlananna þriggja séu mismiklar. Í þessu síðasta tilfelli þyrfti til dæmis að ákveða nýjan kjördag innan viku. „En talningu yrði frestað þangað til kosningu á viðkomandi stað yrði lokið,“ segir Ástríður.

Hún segir aðspurð að ekki hafi þurft að grípa til slíkra aðgerða áður, hins vegar hafi þær verið undirbúnar. „Kosningin 1979 var í tvo daga til dæmis, ég veit ekki hvort það var ákveðið fyrir fram eða með örstuttum fyrirvara,“ segir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar.

„Það er stefna landskjörstjórnar að stefna ekki öryggi fólks í hættu við framkvæmd kosninga,“ segir hún í viðtalslok, „við berum virðingu fyrir náttúruöflunum og viljum hvorki leggja líf fólks né atkvæði í hættu. Við höfum alltaf þetta öryggissjónarmið í huga og það finnst okkur mikilvægt,“ segir Ástríður Jóhannesdóttir að lokum.

Kjörstjórnarmaður í 50 ár

„Varðandi okkur líst okkur helst þannig á að fresta þurfi kosningum ef fólk kemst ekki á kjörstað,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar norðausturkjördæmis, við mbl.is.

„Við höfum svo sem lent í veðrum hér áður, sérstaklega hvað varðar að koma atkvæðum frá Grímsey og svo hefur verið vont í sjóinn þegar verið er að sigla með þetta yfir á Norðfjörð,“ heldur Gestur áfram og talar af reynslu, kjörstjórnarmaður frá 1974 – í ein 50 ár.

Gestur Jónsson yfirfer kjörgögn í september 2021. Hann ætti að …
Gestur Jónsson yfirfer kjörgögn í september 2021. Hann ætti að kunna það, 50 ár í kjörstjórnum og þetta er líka það síðasta segir hann. mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

„En við höldum ró okkar, við fylgjumst vel með og við förum ekki að leggja líf og limi fólks í hættu og það má ekki heldur svipta fólk þeim rétti að fá að kjósa,“ segir Gestur.

Fer þetta svo ekki að verða rafrænt á næstu árum, hlýtur ekki að koma að því?

„Ja, það fyrsta sem þyrfti að gerast er að fá rafræna kjörskrá sem myndi auðvelda alla vinnu mjög mikið og þá til dæmis vinnu undirkjörstjórna sem eru að telja,“ svarar hann, „í dag er þetta heilmikil handavinna að vera að telja á tveimur eða þremur stöðum og þurfa að eltast við hverjir hafa kosið og hverjir ekki, utankjörfundaratkvæði eru það flókin, það þarf að fylgja því eftir að nýjasta atkvæði komist til skila,“ segir Gestur.

Hann byrjaði sem talningarstjóri árið 1974 „og svo endaði ég í kjörstjórn, ég var ungur maður. En þetta er líka síðasta árið hjá mér,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar norðausturkjördæmis, að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka