Esther Jónsdóttir, stjórnmála- og jafnréttisfræðingur, segir erfitt að setja reglur um hvað má og má ekki segja til þess að vera gildur í pólitík.
Fólk verði á endanum að gera upp við sig í kjörklefanum hvað því þyki ásættanlegt að fulltrúar þeirra á Alþingi láti út úr sér.
Esther var gestur Dagmála nýverið og ræddi þar þá gjá sem virðist vera að myndast milli kvenna og karlmanna í stjórnmálum.
Meðal þess sem barst til tals voru gamlar og ósæmilegar bloggfærslur Þórðar Snæs Júlíussonar, sem vermir þriðja sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi Norður, auk ummæla þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins árið 2018 á Klaustri bar.
Þórður Snær hlaut mikla gagnrýni vegna ummæla sinna eftir að þau voru dregin upp á yfirborðið, nær tuttugu árum eftir að þau voru rituð, en hann hefur í kjölfarið tilkynnt að hann hyggist ekki taka sæti á þingi jafnvel þó hann hljóti kjör.
Allir fimm karlmennirnir sem voru hluti af Klaustursmálinu, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, eru í framboði fyrir Miðflokkinn í Alþingiskosningunum.
Esther segir fólk vissulega þurfa að gæta varhuga við að stimpla fólk til eilífðar fyrir eitthvað sem það hafi sagt. Auðvitað sé þó ekki alfarið hægt að aðskilja stjórnmálamenn frá þeirra persónulegu skoðunum eða ummælum.
„En það samt segir eitthvað um það sem þú munt gera á pólitískum vettvangi. Það getur ekki verið 100% aðskilið,“ segir Esther.
„Ég held að með bæði þessi mál þá sé það eitthvað sem fólk þurfi svolítið að skoða og flokkarnir eiga klárlega að taka á, og það á að vera í umræðunni að fólk hafi hagað sér á hinn eða þennan hátt ef það ætlar að vera á þessum vettvangi og starfa í umboði okkar í landinu.“
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér: