Píratar hlutu hæstu einkunn Ungra umhverfissinna annað kjörtímabilið í röð fyrir stefnur sínar og áherslur í umhverfismálum, en flokkurinn hlaut 91,66 af 100 stigum.
Niðurstöður Sólarinnar, einkunnagjafar Ungra umhverfissinna, voru kynntar um helgina. Einkunnagjöfin lýtur að stefnum og áherslum stjórnmálaflokkanna er varða loftslagsmál, náttúruvernd og hringrásarsamfélag.
Meðal þess sem er metið eru umfang og fjármögnun langtíma- og skammtímamarkmiða í loftslagsmálum, endurbætur, orkumál, vistkerfi og landbúnaður og matvæli svo eitthvað sé nefnt.
Vinstri græn héldu öðru sætinu frá síðustu kosningum en þau skoruðu 88,33 stig. Þá er Viðreisn í þriðja sæti með 73,16 stig og Samfylkingin í fjórða sæti með 59,33 stig.
Sósíalistar hljóta 39,16 stig, Framsókn 29,50 stig og Sjálfstæðisflokkurinn 20,66.
Miðflokkurinn, Lýðræðisflokkurinn og Flokkur fólksins deila lægstu sætunum með fimm stig, tvö stig og eitt stig. Ábyrg framtíð, sem býður einungis fram í einu kjördæmi, fær engin stig.
Nöfn flokka voru afmáð áður en stefna þeirra var metin og gætt var að samræmi í einkunnagjöf með því að láta ólíkt matsfólk fara yfir og reikna fylgni milli svara þeirra, þ.e. áreiðanleika matsins.
Kvarðinn er unninn af þverfaglegu teymi ungra fræðikvenna í umhverfis- og sjálfbærnifræði sem gerðu kvarðann út frá tillögum 1.200 meðlima Ungra umhverfissinna í nánu samstarfi við stjórn félagsins og álit fjölda óháðra sérfræðinga.
Hægt er að kynna sér einkunnagjöfina og málefnin með því að þrýsta á þau í einkunnatöflunni á vefsíðu Sólarinnar hér.