Sýningar á verki Íslenska dansflokksins, Jóladraumar, hefjast 1. desember í Borgarleikhúsinu. Höfundur verksins og danshöfundur er Inga Maren Rúnarsdóttir. Hún segir sýninguna ætlaða börnum og snúist um mikilvægi þess að líta inn á við og finna fyrir hlýjunni í hjartanu á fallegum stundum.
„Það er þess virði að deila „leyndarmálinu“ með forvitnum börnum, sérstaklega á jólunum. Sagan sýnir krökkum að jólin snúast ekki um efnislegar gjafir og fyrirframgefnar hugmyndir um hvernig jólin eiga að líta út. Hún fjallar um unga forvitna stúlku sem eltir ljósin í leit að hinum dularfulla jólaanda og sannri merkingu hans. Á leið sinni hittir hún töfrandi fyrirbæri og frekar fúlan jólakött, hræddan héra og illa lyktandi skötu. Hún kemst líka að því hvað það er gefandi að hjálpa vini og hvernig góðvild getur fengið hvern sem er til að brosa,“ segir hún.
Eftir sýninguna er svo slegið upp jólaballi þar sem nokkrar danshreyfingar eru kenndar. „Við settum okkur líka í samband við Póstinn og þau voru svo væn að bjóðast til að koma jólakortum til skila fyrir gesti sýningarinnar.Áhorfendum býðst sem sagt að stinga jólakveðju í rauðan póstkassa fyrir framan sýningarsalinn í Borgarleikhúsinu. Við útvegum jólakort sem hægt er að næla sér í fyrir eða eftir sýningu og hvetjum alla til að skrifa fallega kveðju til ástvina,“ segir Inga Maren.