Birna Dröfn Jónasdóttir, fyrrverandi blaðamaður á Fréttablaðinu og núverandi starfsmaður Athygli, var ekki par sátt við vinnubrögð Blackbox Pizzeria, sem lokaði starfsstöðvum sínum í Borgartúni á fimmtudag.
Birna hafði pantað salinn Blackbox undir jólapartý. Hún kom hins vegar að luktum dyrum síðastliðinn föstudag þegar hún ætlaði að undirbúa salinn.
Að sögn Birnu var salurinn pantaður með löngum fyrirvara og hafði hún verið í honum fyrir rúmri viku þar sem rætt var um það hvenær hún gæti komið til að skreyta salinn.
Skrifar hún um reynslu sína á Facebook og kveðst hafa mætt og skoðað salinn á mánudaginn fyrir viku og rætt þar um viðburðahaldið á föstudeginum, hvenær hún mætti koma og skreyta og svo framvegis.
„Þegar ég svo mætti á tilætluðum tíma, eftir hádegi á föstudaginn, klyfjuð skreytingum, kareoke-græju, gasblöðrum, photobooth og ég veit ekki hverju og hverju var allt læst og enginn inni. Ég reyndi að hringja um allt og senda pósta en fékk engin svör...um 14.30 náði ég loksins í mann sem tengist þessum stað, hann sagði mér að staðnum hefði verið lokað deginum áður og að ég þyrfti bara að finna annan stað...ekki einu sinni sorry...“ segir Birna í færslu sinni.
Að sögn Birnu fór málið þó á besta veg og að lokum og kom Sjávarklasinn til bjargar. Gat hún því haldið veisluna klukkan 19 eins og til stóð þó vettvangurinn væri annar.