Lagt til að leikskólinn verði rifinn niður

Til stóð að endurbæta húsnæði leikskólans Laugasól en í ljós …
Til stóð að endurbæta húsnæði leikskólans Laugasól en í ljós komu verulegir gallar á burði og fleiru í húsinu. mbl.is/Karítas

Umhverfis- og skipulagssviðs mun leggja til við borgarráð að rífa niður leikskólann Laugasól í Laugarneshverfi í Reykjavík. Þess í stað verður lagt til að byggðja nýjan leikskóla á sömu lóð. 

Þetta segir Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

„Það kom í ljós þegar það var grafið frá kjallaranum á húsinu að það voru engar undirstöður undir botnplötunni. Jarðvegurinn sem húsið hvílir á er ekki burðarhæfur,“ segir hann.

Átti að stækka skólann

Til stóð að stækka aðstöðu í Lauga­sól með end­ur­gerð á kjall­ara skóla­hús­næðis­ins. Hefðu fram­kvæmd­ir haldið áfram hefði skól­inn stækkað úr sjö deild­um í níu og getað rúmað um 190 til 200 börn.

Húsið er gam­alt en það var byggt árið 1965 og um 150 börn sækja skól­ann.

Ámundi segir að umhverfis- og skipulagssvið muni leggja til að nýr leikskóli verði byggður á sömu lóð.

Getur tekið allt að ár að hefja framkvæmdir

„Það er náttúrulega í gildi deiliskipulag fyrir þessa lóð sem gerir ráð fyrir leikskólabyggingu og við vinnum bara út frá því. Stefnan verður klárlega sú að byggja bara nýjan leikskóla á þessum stað,“ segir hann.

Ámundi telur að það gæti tekið allt að eitt ár að hefja framkvæmdir frá og með deginum í dag, að því gefnu að borgarráð samþykki tillögu umhverfis- og skipulagssviðs. 

Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Skjáskot/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert