Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, nýtti í gær aðgang sinn að Facebook-síðu Miðflokksins í Suðurkjördæmi til að birta færslu þar sem Kári Stefánsson hnýtir í frambjóðanda flokksins í Reykjavík.
Kostaði Tómas færsluna í þokkabót til að fleiri gætu séð hana.
Miðflokkurinn segist líta málið alvarlegum augum en tæpar fjórar vikur eru liðnar frá því að Tómas Ellert sagði sig úr flokknum og gekk í kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur, oddvita Framsóknar. Fyrir það hafði Tómas sóst eftir því að fá að leiða Miðflokkinn í Suðurkjördæmi.
„Tómas Ellert hefur verið fjarlægður af Facebook síðunni en annir í kosningabaráttu höfðu komið í veg fyrir að kjördæmafélagið gengi fyrr í málið. Miðflokkurinn treystir fólki og Tómas Ellert brást því trausti í kvöld,“ segir í færslu Miðflokksins á sömu Facebook-síðu þar sem athygli er vakin á athæfi Tómasar.
Í færslunni sem um ræðir var aðsendri grein Kára Stefánssonar deilt. Fyrirsögn greinarinnar var „Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar“. Hnýtir þar Kári í Snorra Másson, oddvita Miðflokksins í Reykjavík suður, fyrir að gera athugasemdir við umfjöllun Ríkisútvarpsins um flokkinn.
Ritaði Tómas með færslunni: „Þú ert kominn í Miðflokkinn og mátt ekki láta það skína að þér líki illa við stefnu hans með því að kvarta undan fjölmiðli sem segir frá henni.“
Miðflokkurinn segir leitt að sjá fyrrum samflokksmann til margra ára sigla undir fölsku flaggi á vettvangi þar sem hann áður gegndi trúnaðarstörfum.
Tómas Ellert svaraði flokknum á sinni eigin Facebook-síðu seint í gær.
Þar segist hann ekki hafa siglt undir fölsku flaggi og vísar til þess að nafn hans hafi birst með kostuðu færslunni. Kveðst hann jafnframt hafa verið meðvitaður um að nafnið hans myndi birtast með kostuðu færslunni enda hafi hann sjálfur greitt fyrir auglýsingar á þessari síðu í tæp átta ár fyrir hundruð þúsunda.
„Ég lít það aftur á móti mjög alvarlegum augum að þið fyrrum félagar mínir séuð illa áttaðir og fylgist ekkert með því sem er að gerast í kringum ykkur. Þingflokkurinn mætir ekki í atkvæðagreiðslur á þingi og veit ekkert hvað hefur verið samþykkt þar og ekki mættu þeir sem framboðslistann skipa í Suðurkjördæmi, einu sinni við skóflustungu á nýju Selfossbrúnni,“ skrifaði Tómas.
„Þannig að ég vildi nú bara af gæsku minni smella þessu opna bréfi Kára til Snorra á síðuna svo að þið gætuð nú að minnsta kosti látið Snorra vita af þessu opna bréfi því það virðist sem að einhvern veginn að allt fari fram hjá ykkur þessa dagana m.a.s. að oddviti eins listans ykkar er á öndverðri skoðun við það sem þið hafið áður látið frá ykkur varðandi landbúnaðarmál þó hún sé sammála ykkur um að vera tilbúnir að selja Landsvirkjun (það hefur ekki komið leiðrétting frá ykkur varðandi það atriði á síðu viðskiptaráðs svo það heldur líklegast). Annað vakti nú ekki fyrir mér elsku ljúflingarnir mínir og krútt.“