Ómögulegt að segja hver þolmörkin eru

Orkuverið í Svartsengi.
Orkuverið í Svartsengi. mbl.is/Eyþór

„Þetta er á mjög góðum stað í sjálfu sér þó svo að það renni hraun niður í áttina að Svartsengi, en sem betur fer er nú gígurinn að róast.“

Þetta segir Olgeir Sigmarsson, formaður stjórnar Jarðvísindastofnunar, um gosið við Sundhnúkagígaröðina, það tíunda á þremur árum.

Í skýrslu frá forsætisráðuneytinu fyrr í mánuðinum var vísað í álit stjórnarinnar þar sem sagði að ekki þyrfti nema eitt eða tvö gos af svipaðri stærðargráðu og á sam­bæri­leg­um stað og síðustu gos til þess að erfitt geti reynst að verja orku­mann­virki í Svartsengi.

Gaus norðanlega og flæðið ekki of mikið

Spurður hvort það sé raunin eftir þetta gos svarar Olgeir neitandi. Álitið vísi til þess að erfitt myndi reynast að verja Svartsengi og Grindavík ef aftur myndi gjósa á suðurhluta Sundhnúkagígaraðarinnar.

Í álitinu hafi sömuleiðis sagt að ef gysi á norður­hluta raðar­inn­ar væri hraun líklegra leita með aukn­um þunga til norðurs, í átt að Reykja­nes­braut­inni. 

„Ef það gýs sunnarlega þá hleðst náttúrulega upp að varnargörðunum í kringum Grindavík og það er bara heilmikið mál. En eins og er þá er þetta tiltölulega norðarlega og þessi miðgígur þar sem rennur til vesturs í áttina að Svartsengi, þeir virðast ráða ágætlega við þetta því flæðið er ekki svo mikið,“ segir Olgeir.

erfitt myndi reynast að verja Svartsengi og Grindavík ef aftur …
erfitt myndi reynast að verja Svartsengi og Grindavík ef aftur myndi gjósa á suðurhluta Sundhnúkagígaraðarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum ekki hugmynd“

Fyrst og fremst telji hann vert að hrósa þeim sem vinni hetjudáðir við að byggja varnargarða af kappi og verja innviði og svæðinu.

Ómögulegt sé að segja hversu mörg gos innviðir á svæðinu þoli enda engin leið til þess að vita nákvæmlega hvar þau komi upp.

Í áliti sínu fyrir skýrslu forsætisráðuneytisins hafi stjórn Jarðvísindastofnunar reynt að gera grein fyrir líklegum sviðsmyndum, þó að ekki sé hægt að fullyrða neitt um það sem gerist djúpt í niðrum jarðar og ekki hægt að líta berum augum.

„Við höfum ekki hugmynd. Það er bara þannig, náttúran er bara þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert