Rannsókn á Hamraborgarráninu lokið

Þjófarnir stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg.
Þjófarnir stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsókn lögreglunnar í svonefndu Hamraborgarráni er lokið og er málið komið til ákærusviðs. Einn er með stöðu sakbornings.

Þetta staðfestir Sigrún Kristín Jónasdóttir, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is. Hún segir að skýrslur hafi verið teknar af nokkrum aðilum og að málið sé nú í höndum ákærusviðs sem ákveði hvort gefin verði út ákæra.

Ránið átti sér stað í lok mars en 20 til 30 milljónum króna var stolið úr verðmætaflutningabifreið á vegum Öryggismiðstöðvarinnar fyrir utan skemmtistaðinn Catalina.

Fjármunirnir voru í tveimur töskum í verðmætaflutningabifreiðinni en alls höfðu þjófarnir með sér á brott sjö töskur úr bílnum, sem fundust á víðavangi við Esjumela og í Mosfellsbæ. Þýfið voru peningar sem komu úr spilakössum á vegum Happdrættis háskólans.

Sérstakar litasprengjur voru í töskunum sem eiga að springa og eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til að nálgast þau.

Í kjölfarið lýsti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir tveimur mönnum á dökkgráum Toyota Yaris með tveimur skráningarnúmerum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Maður um fertugt var í maí úrskurðaður í gæsluvarðhald en hluti af stolnu fjármunum fannst í fórum mannsins. Honum var sleppt eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í sjö daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert