Reykjavíkurborg hyggst slökkva á umferðarljósum á gatnamótum Langholtsvegar og Álfheima klukkan níu. Verða ljósin óvirk í allan dag.
Í tilkynningu á vef borgarinnar segir að þetta sé gert vegna vinnu við endurnýjun umferðarljósabúnaðar. Er m.a. verið að skipta út perum fyrir LED og tengja ljósin við miðlæga stýritölvu umferðarljósa og forgangskerfi fyrir almenningssamgöngur og neyðarbíla.
Töluverð umferð barna á leið í skólann er á gatnamótunum og eru vegfarendur beðnir um að fara varlega.