Ívar Haukur Jónsson, lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, lést á Landspítalanum í Fossvogi 21. nóvember síðastliðinn, 97 ára að aldri.
Ívar fæddist 28. september 1927 í Reykjavík, sonur hjónanna Aðalheiðar Ólafsdóttur, húsfreyju á Litla-Hálsi í Grafningi, síðar búsettri í Reykjavík, og Jóns Ívarssonar, bónda á Litla-Hálsi og síðar verkamanns í Reykjavík.
Ívar gekk í Austurbæjarskóla og Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1947. Hann stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. juris-prófi í janúar 1953.
Ívar hóf störf sem blaðamaður við Þjóðviljann í febrúar 1953. Í samtali við Morgunblaðið í tilefni af 95 ára afmæli hans sagðist hann ekki hafa fengið starf strax sem lögfræðingur og boðist starf blaðamanns sem átti að vera tímabundið.
En Ívar smitaðist af fjölmiðlabakteríunni og átti eftir að starfa á Þjóðviljanum í 18 ár. Hann varð fréttastjóri 1959 og ritstjóri frá 1963 til 1971. Frá 1971 til 1997 starfaði Ívar sem skrifstofustjóri og fjármálafulltrúi Þjóðleikhússins.
Ívar var formaður Félags róttækra stúdenta 1950-1951 og sat í stjórn Blaðamannafélags Íslands 1963-1971, þar af formaður 1963-1964 og 1969-1970. Hann sat í aðalstjórn MÍR frá 1972 og var formaður félagsins 1974-2016 en félagið var stofnað árið 1950 til að efla menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna og var Halldór Laxness fyrsti formaður þess. Félagið var með ýmsa menningardagskrá, fastar kvikmyndasýningar og kom sér upp góðu bókasafni. Ívar skipulagði og stýrði hópferðum til Sovétríkjanna sem farnar voru á vegum MÍR.
Eftirlifandi eiginkona Ívars er Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir, fv. handavinnukennari í Reykjavík. Börn Ívars og Ragnhildar eru Jón og Þórdís. Barnabörnin eru þrjú og barnabarnabörnin fimm.
Útför Ívars fer fram frá Neskirkju föstudaginn 29. nóvember kl. 13.