Það var fátt um frambjóðendur Suðurkjördæmis á fjölmennum kappræðum á Sviðinu á Selfossi fyrr í kvöld.
Á fjórða hundrað manns létu sjá sig á fundinum en aðeins fjórir frambjóðendur.
Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Karl Gauti Hjaltason, oddviti Miðflokksins, og Elvar Eyvindsson, oddviti Lýðræðisflokksins létu sjá sig og svöruðu spurningum kjósenda.
Víðir Reynisson, oddviti Samfylkingarinnar, Guðbrandur Einarsson, oddviti Viðreisnar, Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, oddviti Vinstri grænna, Týr Þórarinsson, oddviti Pírata, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, oddviti Flokks fólksins, og Unnur Rán Reynisdóttir, oddviti Sósíalista, mættu ekki.
Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, stýrði umræðum.
Karl Gauti vildi taka á hælisleitendamálum og sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa varpað gildum sínum fyrir borð með því að hleypa sósíalistum að ríkisstjórnarborðinu síðustu sjö ár.
Guðrún Hafsteinsdóttir eyddi drjúgum hluta af tíma sínum í að hjóla í Karl Gauta og útskýrði fyrir honum hvernig tökin hefðu verið hert í útlendingamálum að undanförnu.
Hún sagði heilbrigðismál, efnahagsmál og samgöngumál brenna mest á kjósendum og hún sagði að tryggja þyrfti bráðamóttöku á Suðurland sem allra fyrst.
Sigurður Ingi skaut á Karl Gauta og sagði hann ætla að gefa hátt í hundrað milljarða með því að gefa hann landsmönnum í stað þess að selja hann.
Hann sagði húsnæðisvextina vera stærstu áskorunina fyrir næstu ríkisstjórn.
Sigurður Ingi sagði að hann sæi smá eftir því að hafa endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna en aftur á móti hafi ekkert annað verið í stöðunni.
Spurt var um sölu jarða til útlendinga og Guðrún sagði að það væri dapurt að sjá hversu mikið af landi væri keypt af útlendingum, en kvaðst þó ekki vilja takmarka eignarréttinn.
Sigurður kvaðst vera ósáttur við það að ekki hefði verið hægt að takmarka enn frekar sölu á jörðum til útlendinga og bætti því við að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðið í vegi fyrir því að gengið yrði lengra.
„Við erum bláeygð og einföld og við verðum að taka á þessu,“ sagði Sigurður um sölu jarða til útlendinga.
Karl Gauti hjólaði í Sigurð og Guðrúnu og sagði þau bæði vera í ríkisstjórn og gagnrýndi þau fyrir að hafa ekki stöðvað sölu á jörðum til útlendinga nú þegar.
Elvar Eyvindsson lagði mest alla áherslu sína á vaxtamálin. Hann sagði Lýðræðisflokkinn vilja setja lög á Seðlabankann og banna þeim að hækka stýrivexti yfir 4%.