„Grafalvarlegt að logið sé að kjósendum“

Sjö félagssamtök hvetja stjórnmálamenn til ábyrgrar umræðu síðustu dagana fyrir …
Sjö félagssamtök hvetja stjórnmálamenn til ábyrgrar umræðu síðustu dagana fyrir kosningar. Kristinn Magnússon

Sjö félagssamtök hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau hvetja stjórnmálafólk til ábyrgrar umræðu á þeim fáu dögum sem eftir eru til kosninga.

Undir yfirlýsinguna rita Samtökin '78, Kvenréttindafélag Íslands, Barnaheill, Trans Ísland, Stígamót, Geðhjálp og UNICEF.

Segir þar að það séu vonbrigði að sjá, síendurtekið, innflutt stef í opinberri umræðu sem minnir á málflutning öfgaíhaldsins í Bandaríkjunum, Ungverjalandi og víðar, í ljósi þess að á Íslandi hefur jafnrétti kynjanna og frelsi hinsegin fólks til að vera það sjálft verið í hávegum haft um árabil.

Kvarta hástöfum yfir vekni

„Á undanförnum vikum hafa fulltrúar hvers flokksins á fætur öðrum kvartað hástöfum yfir meðvitund um mannréttinda- og jafnréttismál, því sem þau kalla vók eða pólitískan rétttrúnað, gegn sjálfsákvörðunarrétti trans fólks, gegn fullri og jafnri atvinnuþátttöku kvenna og gegn fullum yfirráðum kvenna yfir eigin líkama.“

Ísland sé opið og réttlátt samfélag þar sem allt fólk eigi að geta notið virðingar. Sá árangur sem hafi náðst í jafnréttis- og mannréttindamálum sé tilkominn vegna öflugrar samstöðu og stöðugrar baráttu og fólk þurfi því að kjósa eftir þeim gildum sem Íslendingar hafi í hávegum.

Þvert á vísindalega þekkingu

Segir einnig í yfirlýsingunni að í fyrsta skipti í sögunni hafi pólitískt framboð á Íslandi talað fyrir því að taka til baka áunnin réttindi hinsegin fólks, nánar tiltekið að banna heilbrigðisþjónustu fyrir trans börn og ungmenni.

Það sé gert þvert á vísindalega þekkingu og af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart velferð þeirra barna sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins og stuðningi samfélagsins að halda.

„Það er grafalvarlegt að logið sé að kjósendum um hinsegin málefni til þess að veiða atkvæði frá fólki sem ekki veit betur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka