Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að veðurspárnar fyrir kjördag, 30. nóvember, séu að verða nokkuð ljósar.
Einar segir að skörp skil fari yfir austanvert landið á laugardaginn og spár geri ráð fyrir talsvert mikilli ofankomu eða allt að 40 millimetrum þar sem mest verður á Austurlandi. Hann segir að hríðin skelli á Austurlandi snemma morguns á laugardaginn og það muni snjóa allan daginn í norðaustan allhvössum vindi.
„Óvissan er kannski meira hversu hratt þetta gengur yfir og hvað veðrið muni ná yfir stóran hluta landsins. Hvort það nái suður til Hornafjarðar og austan til á Norðurlandi. Veðrið gengur niður seint á laugardagskvöldið en það má eiginlega segja að þetta óveður hitti akkúrat á kjördaginn,“ segir Einar við mbl.is.
Hann segir að veðrið ætti hvorki að hamla einu né neinu á Suður- og Vesturlandi en spár gera ráð fyrir éljagangi á Norðvesturlandi og á Vestfjörðum.
Einar segir að hætt sé við því að fjallvegir á Norðaustur- og Austurlandi geti teppst og þó svo að Vegagerðin reyni að halda vegum opnum þá verður ofankoman það mikil og blinda að vandræði geti skapast á vegum. Hann segir að það eigi sérstaklega við fjallvegi eins og á Möðrudalsöræfum, Fjarðarheiði og víðar.
„Það er alltaf ákveðin áhætta með kosningar að vetrarlagi og það er alveg óhætt að segja að það sé mikil áskorun til staðar á mörgum vígstöðvum.“
Eins og mbl.is hefur greint frá gæti veðrið haft mikil áhrif á komandi kosningar.
„Ef það þarf að fresta kosningu, í einhverri kjördeild einhvers staðar á landinu, þá er ekki hægt að telja annars staðar og birta úrslitin,“ sagði Ari Karlsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Einar er veðurfræðingur Vegagerðarinnar, sem mun standa í ströngu að halda vegum opnum á kjördag, og þá heldur hann úti vefsíðunni Blika.is sem rýnir í allt það sem tengist veðri.
Þar kemur fram að samkvæmt spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar sé gert ráð fyrir hríðarveðri á Austurlandi frá því síðla nætur og fram á kvöld á kjördag. Þar segir að lægðin sé heldur vestar en í spá gærdagsins og miðað við þessa aðalspá muni hríðarveðrið ná einnig til Hornafjarðar og allt suður í Öræfi.