Heilbrigðismálin eru efst á blaði

Þýðið endurspeglar kjósendur, m.t.t. kyns, aldurs, búsetu og menntunar, og …
Þýðið endurspeglar kjósendur, m.t.t. kyns, aldurs, búsetu og menntunar, og svarendur voru 1.321. mbl.is/Karítas

„Heilbrigðismálin eru efst á lista hjá kjósendum allra flokka nema kjósenda Miðflokksins, þar sem útlendingamálin eru efst á lista,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands, um spánnýja Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ þar sem spurt var um hvaða málaflokkar skiptu mestu máli í komandi kosningum.

„Það er áhugavert að skoða ákveðna málaflokka sem eru ekki að skora mjög hátt þrátt fyrir að vera fyrirferðarmiklir í umræðu ákveðinna flokka. Þar má nefna áherslu Pírata á stjórnarskrármálin, sem fá ekki nema 11,4% stuðning hjá kjósendum þeirra hér, og sama má segja um Evrópumálin, sem hafa verið fyrirferðarmikil hjá Viðreisn, en í könnuninni er tæplega fjórðungur sem telur þau meðal mikilvægustu málefna,“ segir Rúnar. Þá nefnir hann einnig samgöngumál sem hafa oftast verið oddamál hjá Framsókn en eru núna í þriðja sæti á eftir heilbrigðis- og húsnæðismálum hjá kjósendum flokksins, og reyndar eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins einnig með þau í þriðja sæti.

Kort/mbl.is

Skattamál eru veigamikil hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins, eða í 4.-5. sæti, og Sósíalistaflokksins, í 3. sæti, en Rúnar segir að líklega greini stuðningsmenn flokkanna tveggja á um markmið og leiðir. Hjá Samfylkingu eru heilbrigðis- og húsnæðismál efst og síðan skuldir heimilanna, en skuldamálin eru í 3. sæti hjá Flokki fólksins, hæst allra flokka.

„Það kemur mér á óvart að grundvallaratvinnuvegir eins og sjávarútvegurinn nái ekki flugi sem áherslumál, en oft hefur sá málaflokkur verið bitbein fyrir kosningar,“ segir Rúnar.

Þegar umhverfismálin eru skoðuð eru fáir flokkar með þau í öndvegi, en þau skora hæst hjá kjósendum VG og Pírata. „Mál sem snerta fólk beint, eins og efnahags-, heilbrigðis- og húsnæðismál, skipta fólk meira máli í aðdraganda kosninga en mál sem margir sjá sem fjarlægari og væri seint hægt að keyra á þeim málum í íslenska flokkakerfinu og ná árangri.“

Athugið: EKki var hægt að greina sundur málefni meðal stuðningsmanna Lýðræðisflokksins vegna þess hve þeir voru fáir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka