Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur undanfarið leitt átaksverkefni vegna brunahættu í tengslum við þakpappa á byggingum hérlendis og segir í tilkynningu um átakið á heimasíðu sinni að verklagi við lagningu þakpappa sé ábótavant á landinu og hafi margir brunar átt sér stað undanfarin ár af þeim sökum.
„Efla ætti fræðslu tengd[a] byggingarvinnu sem felur í sér notkun á opnum eldi og gera ætti kröfu um starfsleyfi fyrir slíka vinnu. Þetta er á meðal niðurstaðna átaksverkefnis um úrbætur um lagningu þakpappa sem HMS leiðir, en vænta má RB-leiðbeiningablaðs um málið í næsta mánuði,“ segir þar.
Hófst verkefnið í kjölfar brunans í Kringlunni í sumar sem miklu eignatjóni olli og byggir verkefnið á þremur lykilþáttum – útgáfu leiðbeiningablaðsins, þróun fræðsluefnis og tillögum um breytingar á regluverki.
HMS hefur leitt átaksverkefnið á síðustu mánuðum, en stofnunin hóf það í kjölfar eldsvoða sem varð í Kringlunni í sumar og olli miklu eignatjóni í þakvirki út frá lagningu þakpappa.
„HMS óskaði eftir tilnefningum frá helstu hagsmunaaðilum í byggingargeiranum til að mynda starfshóp um úrbætur um lagningu þakpappa. Viðtökur voru framar væntingum og ljóst að breið samstaða er hjá öllum fagaðilum í að vinna saman að bættu verklagi. Starfshópurinn myndaðist hratt og samanstendur af fulltrúum frá Samtökum [i]ðnaðarins, Vinnueftirlitinu, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Brunatæknifélaginu ásamt fulltrúum HMS,“ segir enn fremur.
Starfshópurinn vinni nú að gerð RB-leiðbeiningablaðs um verklag og öryggi við lagningu ábrædds þakpappa með notkun elds og sé fyrirhuguð útgáfa 23. desember. Leiðbeiningarnar innihaldi verklagsreglur og gátlista til að auðvelda framkvæmdaaðila skipulag og auka öryggi á verkstað.
„Með þessu verkefni leitast HMS við að efla öryggi í byggingargeiranum, auka fræðslu og stuðla að ábyrgari vinnubrögðum. Þetta er stórt skref í átt að öruggara og faglegra vinnuumhverfi á Íslandi. HMS hvetur alla aðila í byggingargeiranum til að kynna sér leiðbeiningar sem verða gefnar út og taka þátt í námskeiðum sem styðja við markmiðið um öruggari framkvæmd við lagningu þakpappa,“ segir að lokum á síðu stofnunarinnar.