Horfa til sjálfbærs þotueldsneytis til að mæta kröfum

Alþjóðlegt regluverk nær utan um millilandaflug og eru það einna …
Alþjóðlegt regluverk nær utan um millilandaflug og eru það einna helst tvær Evrópugerðir sem ætlað er að skapa hvata til orkuskipta í flugi. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenskir flugrekstraraðilar þurfa að nýta sér í meiri mæli sjálfbært þotueldsneyti (e. sustainable avation fuel (SAF)) til að uppfylla alþjóðlegar skyldur sínar varðandi samdrátt í losun frá millilandaflugi.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í febrúar 2023, en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra var formaður hópsins. 

Fjallað er um málið í tilkynningu sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið sendi frá sér. 

Gætu framleitt íblandað eldsneyti hérlendis

Í skýrslunni er kveðið á um að orkuskipti í millilandaflugi verði ekki án innleiðingar endurnýjanlegs eldsneytis og að íblöndun á sjálfbæru þotueldsneyti geti átt sér stað með framleiðslu hérlendis, með innflutningi eða hvoru tveggja.

Þá er gert ráð fyrir því að eftir árið 2035 verði komin til leiks ný tækni sem taki við af hefðbundnum þotuhreyflum. Er þá einkum horft til vetnis í því samhengi.

Í tilkynningunni er bent á að alþjóðlegt regluverk nái utan um millilandaflug og eru það einna helst tvær Evrópugerðir sem ætlað er að skapa hvata til orkuskipta í flugi.

Annars vegar er það gerð um viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir eða ETS sem setur verðmiða á losun.

Hins vegar er það nýleg ReFuel-gerð, sem setur kröfu um íblöndunarhlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í þotueldsneytið.

Segja að það þurfi 172 MW af uppsettu vatnsafli

Starfshópurinn leggur, meðal annars, fram eftirfarandi tillögur í skýrslu sinni: 

  • Skapaðar verði forsendur til að tryggt sé aðgengi að sjálfbæru þotueldsneyti (SAF) hérlendis.
  • Gerð verði krafa um lágmarkshlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa (ReFuel) í þotueldsneyti sem selt er til millilandaflugs.
  • Greind verði efnahags-, umhverfis- og samfélagsleg áhrif þess að setja orkuskiptagjald á hvern flugfarþega (bæði í innanlands- og millilandaflugi) sem renni í sjóð sem geti niðurgreitt umframkostnað á endurnýjanlegum orkugjöfum.
  • Tryggt verði að sjónarmið um samdrátt í losun og notkun á SAF komi inn í stefnumótun um ferðaþjónustu og vinnu við gerð aðgerðaáætlunar ferðamálastefnu til 2030.
  • Tryggt verði aðgengi að styrkjum til aðila sem hyggja á SAF framleiðslu hérlendis, t.d. í gegnum núverandi styrkjaumhverfi s.s. Loftslagssjóð/Orkusjóð.
  • Tryggt verði aðgengi að orku til framleiðslu SAF og flutning á henni til framleiðslustaðar
  • Skýr rammi verði settur utan um vindorkuvinnslu sem fyrst til að auka framboð á raforku.

Starfshópurinn bendir enn fremur á að verði rafeldsneyti framleitt hér á landi þurfi til þess töluverða orku, auk kolefnis, fjármagns, sem og samkeppnishæfni við aðra kaupendur raforku.

Þannig þurfi 172 MW af uppsettu vatnsafli eða 268 MW af uppsettu vindafli, eigi að framleiða eldsneyti sem uppfylli lágmarksíblöndunarskyldu rafeldsneytis í millilandaflugi árið 2040.

Haft er eftir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í tilkynningu sem segir: 

„Fram undan eru spennandi tímar í orkuskiptum þar sem græn orka mun knýja þotuhreyflana í háloftunum, að einhverju leyti til að byrja með. Orkuskiptin í flugi verða tekin í skrefum líkt og á öðrum sviðum. Fyrsta lykilskrefið er framleiðsla og nýting sjálfbærs þotueldsneytis á hefðbundinn flugflota hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Ísland hefur alla burði til að stíga fram og leggja sitt af mörkunum í loftslagsmálunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert