Jöfnuðurinn jókst milli ára

Eigið fé þeirra best stæðu sem hlutfall af heildar eigin …
Eigið fé þeirra best stæðu sem hlutfall af heildar eigin fé landsmanna lækkaði um 1,3% frá árinu 2022 til 2023 mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jöfnuður hefur aukist á milli ára þegar litið er til hlutfalls eigna og tekna þeirra sem mest hafa á milli handanna af heildarauði landsmanna árin 2022 og 2023.

Eigið fé þeirra best stæðu sem hlutfall af heildar eigin fé landsmanna lækkaði um 1,3% frá árinu 2022 til 2023, en lækkaði um 13,1 prósentustig sé litið áratug aftur í tímann. Svipaða sögu er að segja þegar litið er til heildartekna, en hlutfall tekna hinna tekjuhæstu af heildartekjum landsmanna lækkaði úr 18,3% í 17,6% á milli ára.

Þetta kemur m.a. fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Loga Einarssyni alþingismanni um eignir og tekjur landsmanna árið 2023.

Í fyrirspurninni var innt eftir því hver staða hinna best stæðu væri þegar horft væri til heildarinnar, hvað varðaði eigið fé, eignir og heildartekjur, en spurt var um efstu 5%, efsta 1% og efsta 0,1% landsmanna að þessu leyti, en upplýsingarnar byggjast á framtalsgögnum fyrir tæplega 270 þúsund manns, sem aflað var hjá ríkisskattstjóra.

Þróunin örari

Úr þeim tölum má lesa að jöfnuður hefur aukist, hlutdeild hinna best stæðu af heildinni fer minnkandi. Það má einnig sjá af því að hlutfallslega minnkar hlutdeildin mest á milli ára eftir því sem ofar dregur í tekju- og eignastiganum.

Heildareignir þeirra 5% framteljenda sem mestar eignir áttu 2023 voru þannig 28,3% af heildinni, en voru árinu á undan 28,8%. Sú þróun hefur orðið örari að undanförnu, en samsvarandi hlutfall fyrir áratug var 31,5%.

Sömu sögu er að segja af heildartekjum landsmanna. Í fyrra námu heildartekjur þeirra 5% sem tekjuhæst voru 20,9% af heildinni, en árið 2022 var hlutfallið 21,6%.

Óbreytt staða hjá efsta 0,1%

Fyrirspurnin tók sem fyrr segir einnig til þess eina prósents sem mestar eignir átti. Í því tilviki voru 11% eigna landsmanna í eigu fólks í þeim hópi árið 2023 en árið 2022 var hlutfallið 11,4%. Þegar kemur að efsta 0,1% sést að sá hópur átti 3,3% allra eigna landsmanna árið 2023, en 3,5% árið 2022.

Þegar kemur að tekjum þeirra 5% framteljenda sem mestar tekjur höfðu á tímabilinu, og ekki er tekið tillit til fjármagnstekna, sést að árið 2023 aflaði sá hópur 17,0% heildartekna í landinu en árið áður var hlutfallið 17,6%.

Minna munaði hjá efsta prósenti tekjuhæsta fólksins, það aflaði 5,2% allra tekna árið 2023 en árið 2022 var hlutfallið 5,3%. Staðan var óbreytt hjá efsta 0,1%, sem aflaði 1,0% heildartekna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert