Leggja nýjan veg í gegnum glóandi hraunið

Vinna við lagningu nýs Grindavíkurvegar hófst í dag.
Vinna við lagningu nýs Grindavíkurvegar hófst í dag. mbl.is/Hákon

Lagning nýs Grindavíkurvegar er hafin. Jarðverktakar hófu störf við hann á fjórða tímanum í dag. Er þetta í fjórða skipti sem þessi vegkafli er lagður yfir hraun frá því goshrina hófst í nóvember í fyrra.

Að þessu sinni verður Grindavíkurvegur færður lítillega og mun gamli vegurinn verða nýttur undir þá ferðamenn sem vilja staldra við til þess að mynda umlykjandi hraunið. Svo segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.

Ryðja um sex hundruð metra kafla 

Að sögn hans þarf að ryðja um 600 metra kafla til að tengja veginn að nýju. Jón Haukur býst við því að það muni taka um tvær vikur að koma veginum í nothæft stand en alls er óvíst hvenær hægt verður að veita almenningi aðgang að honum. Samtals hafa verið lagðir um 10 kílómetra vegir í gegnum hraun frá því goshrinan hófst.

Vegkaflinn sem verður ruddur er um 600 metrar.
Vegkaflinn sem verður ruddur er um 600 metrar. mbl.is/Hákon

Jón Haukur segir nokkra daga hafa tekið að hanna nýja veglínu. Enn má sjá rauðglóandi hraunmola í efninu sem verið er að ryðja en Jón Haukur segir að menn hafi orðið talsverða reynslu í því að meta aðstæður sem þessar.

Tekur tvær vikur 

„Það eru fyrst og fremst stærri blokkir sem eru heitar. Langmesti hluti leiðarinnar er laus hraunkargi. Það er bara þessi röst sem við erum að fara í gegnum núna sem liggur hátt en svo fyrir aftan hana er hraunið í raun mun sléttara og léttara yfirferðar,“ segir Jón Haukur. 

Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu. mbl.is/Hákon

Hann segir veginn fyrst um sinn hugsaðan sem vinnuveg fyrir efnisflutning. „Þó að Grindavíkurvegur verði fær þá er ekki þar með sagt að hann muni opna strax fyrir almenna umferð. Það er í sjálfu sér önnur umræða sem þarf að taka hvenær það verður,“ segir Jón Haukur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka