Lífeyrissjóður verzlunarmanna mátti lækka lífeyrisrétt yngra fólks

Sjóðfélagi stefndi lífeyrissjóðnum og krafðist ógildingar á breytingunum. En Hæstiréttur …
Sjóðfélagi stefndi lífeyrissjóðnum og krafðist ógildingar á breytingunum. En Hæstiréttur hefur nú staðfest lögmæti þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna mátti lækka áunn­in rétt­indi yngri sjóðsfé­laga mis­mikið eft­ir aldurs­hóp­um, að mati Hæstaréttar.

Dómur var kveðinn upp í máli sem snýr að því hvort Lífeyrissjóði verzlunarmanna hefði verið heimilt árið 2022 að breyta lífeyrisréttindum þeirra sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri með hliðsjón af nýjum forsendum um lífslíkur.

Þar var gengið út frá því að þeir sem væru yngri myndu ná hærri aldri en þeir sem nú eru eldri. Til að bregðast við nýjum forsendum um lífslíkur lækkaði lífeyrissjóðurinn rétt yngri sjóðfélaga til mánaðarlegs ellilífeyris meira en þeirra eldri þar sem þeir kæmu til með að njóta lífeyris lengur.

Stefndi sjóðnum

Sjóðfélagi sem fæddur var árið 1982 stefndi lífeyrissjóðnum og krafðist ógildingar á breytingunum, þar sem hann taldi þær ekki samræmast lögum um lífeyrisréttindi og lífeyrissjóði, eða vernd eignarréttinda sem tryggð er í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Hann taldi breytingarnar ganga gegn meðalhófi og jafnræði sjóðfélaga.

Í nóvember 2023 komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöður að breytingarnar væru ólögmætar en málinu var áfrýjað.

Í dómi Hæstaréttar kemur þó fram að breytingarnar hefðu stefnt að lögmætu markmiði, byggst á málefnalegum sjónarmiðum og gætt hefði verið að jafnræði og meðalhófi. Þó er tekið fram að lífeyrissjóðurinn hefði getað brugðist við breyttum lífslíkum sjóðfélaga sinna með öðrum hætti.

Að því virtu voru þær taldar vera innan þess svigrúm sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna nýtur, þær hefðu haft stoð í lögum og væru ekki í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu. Var lífeyrissjóðurinn sýknaður af kröfum sjóðfélagans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka