Opnun skyndimóttöku hefur kosti og galla

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opnun skyndimóttöku á höfuðborgarsvæðinu til að létta álagi af bráðamóttöku Landspítala og bæta þjónustu við sjúklinga hefur bæði kosti og galla.

Þetta kemur fram í niðurstöðu starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að kanna möguleika þess að setja skyndimóttöku á fót.

Hópurinn telur að verði ákveðið opna slíka móttöku skuli það gert sem tilraunaverkefni til eins eða tveggja ára. Á þeim tíma verði aflað gagna og upplýsinga um reynslu af þjónustunni og unnið að frekari þróun verkefnisins, að því er kemur fram í tilkynningu.

Forðast ætti skörun

„Starfshópurinn leggur áherslu á að sjúklingahópurinn sem til greina kæmi að þjónusta á skyndimóttöku séu einstaklingar sem þurfa samdægursþjónustu að halda sem gæti krafist myndgreininga, blóðrannsókna, lyfja- eða vökvagjafar í æð en eru ekki taldir þurfa sérhæfða þjónustu sem kallar á innlögn eða eftirlit yfir nótt. Þá þyrfti að forðast skörun við þjónustu sem þegar er veitt annars staðar, svo sem á heilsugæslustöðvum eða Læknavakt,“ segir í tilkynningunni.

Heilbrigðisráðherra ásamt starfshópnum.
Heilbrigðisráðherra ásamt starfshópnum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Leysir ekki vanda vegna innlagna

Í skýrslu sinni leitað starfshópurinn eftir mati Landspítala, heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og Læknavaktinni.

„Af hálfu Landspítala kemur fram að núverandi álag á bráðamóttökunni sé einkum tilkomið vegna sjúklinga sem bíða þar eftir að geta lagst inn á deildir spítalans. Opnun skyndimóttöku myndi ekki leysa þann vanda. Fulltrúar Læknavaktar og heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu telja hættu á því að opnun sjálfstæðrar skyndimóttöku myndi auka flækjustig þjónustunnar og ef til kæmi þyrfti áður að tryggja heildstæða vegvísun fyrir sjúklinga,“ segir í tilkynningunni.

Þjónustan versnað síðustu ár

Niðurstaða starfshópsins er eftirfarandi, að því er kemur fram í skýrslunni:

„Niðurstaða starfshópsins er sú að þjónusta fyrir þann sjúklingahóp sem skilgreindur er í skýrslunni hefur versnað síðustu ár og verri mönnun sérfræðilækna er á bráðamóttöku Landspítala. Hópurinn telur ástæðu þess einkum vera fjölgun sjúklinga á deildinni sem bíða eftir innlögn á legudeildir og að leggja eigi áherslu á úrlausnir sem fækka þeim, en telur ólíklegt að opnun nýrrar skyndimóttöku muni leysa það vandamál. Á sama tíma gæti slík skyndimóttaka hins vegar bætt þjónustu við þann sjúklingahóp sem þarf á samdægursþjónustu að halda sem gæti krafist m.a. myndgreininga, blóðrannsókna eða lyfja- eða vökvagjafar í æð en þurfa ekki sérhæfða þjónustu, t.d. innlögn eða eftirlit yfir nótt. Þó er nokkur hætta á því að opnun skyndimóttöku muni auka á mönnunarvanda bráðalækna á Landspítala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka