Pawel: Auglýsingin ekki kostuð af mér

Auglýsingin hefur vakið eftirtekt.
Auglýsingin hefur vakið eftirtekt. Samsett mynd/mbl.is/Hákon/María/Árni

Pawel Bartoszek segir í gríni á Facebook að hann hafi ekki kostað auglýsingu sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavíkurkjördæmi norður er með í dreifingu.

„Ég vil taka fram að bæklingarnir sem verið er að dreifa í Grafarvoginum og víðar um að valið á laugardaginn standi á milli mín og Brynjars Níelssonar eru ekki kostaðir af mér og mínum flokki, heldur okkar pólitísku mótherjum,“ segir hann á Facebook.

Um er að ræða blöðunga sem Sjálfstæðisflokkurinn keypti framan á Morgunblaðið sem kom út í morgun. Blöðungurinn sýnir baráttusætin í Reykjavík norður.

Þessi blöðungur kom inn um lúguna hjá mörgum í morgun.
Þessi blöðungur kom inn um lúguna hjá mörgum í morgun.

Þakkar drengskapinn

Annars vegar ertu með baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, Diljá Mist Einarsdóttur í 2. sæti og Brynjar Níelsson í 3. sæti, og hins vegar þá sem skipa 2. sæti á lista Miðflokksins, Viðreisnar og Samfylkingarinnar.

Jakob Frímann er þar fyrir Miðflokkinn, Dagur B. Eggertsson er þar fyrir Samfylkinguna og Pawel Bartoszek er þar fyrir Viðreisn.

Pawel segir að öllu gamni slepptu að framsetningin sé fagmannleg og bendir á það að ljósmyndirnar af mótframbjóðendum Sjálfstæðisflokksins séu ágætar.

„Það hefði verið hægt að velja einhverja vonda mynd af mér að borða skúffuköku eða koma í mark í skemmtiskokki. Það var ekki gert og það er bara ástæða þakka þau drengilegheit, aftur, án nokkurrar kaldhæðni,“ skrifar Pawel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka