Samtök atvinnulífsins segja að fjármagnstekjuskattur sé skaðlegri en margir aðrir skattar, þar sem hann ívilni neyslu á kostnað sparnaðar og fjárfestinga. Þau segja óhóflegan fjármagnstekjuskatt geta haft neikvæð áhrif á framtíðarhagvöxt og þar með lífskjör almennings og skatttekjur þegar til lengdar lætur.
Þetta kemur fram í grein sem hagsmunasamtökin birtu á vef sínum á mánudag.
Samfylkingin, einn fylgismesti stjórnmálaflokkur samkvæmt skoðanakönnunum, hefur helst allra flokka talað fyrir því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 22% í 25% og færa hann þannig nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. SA nefna þó enga flokka á nafn í grein sinni.
SA benda á að mismunandi skattkerfi séu á Norðurlöndunum og skattstofninn sé ekki sá sami. Norðurlöndin eigi það þó sameiginlegt að byggja á tvíþættu skattkerfi þar sem laun eru skattlögð með stigvaxandi hætti á meðan fjármagnstekjur eru skattlagðar með flatri og lægri prósentu. Auk þess leggist fjármagnstekjuskattur á nafnávöxtun, sem er ávöxtun áður en tekið hefur verið tillit til virðisrýrnunar vegna verðbólgu.
SA tekur dæmi um milljón króna fjárfestingu sem ber 7% nafnvexti og nafnávöxtunin því 70 þúsund krónur. Sé gert ráð fyrir því að verðbólga sé 4,4% (meðaltal frá 1990) væri raunávöxtunin lægri, eða 24.904 krónur. Síðan leggist 22% fjármagnstekjuskattur á nafnávöxtun, sem jafngildi 15.400 krónum.
Skattbyrðin á raunverulega ávöxtun, eftir að tekið hefur verið tillit til virðisrýrnunar fjárfestingarinnar, nemi þannig 62% og eftir standi 9.504 krónur eftir skatt.
„Hver hefði skattlagning raunávöxtunar verið á Norðurlöndunum ef þau byggju öll við íslenskan fjármagnstekjuskatt? Tökum dæmi þar sem nafnávöxtun er hin sama, en verðbólgan jöfn meðaltalsverðbólgu í löndunum frá árinu 1990. Þar sem verðbólga hefur að jafnaði verið meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum hefðu íslenskir skattgreiðendur búið við mun hærri skattbyrði á raunávöxtun en aðrir Norðurlandabúar, jafnvel þó fjármagnstekjuskatturinn hefði verið 22% í öllum þessum löndum.“
Samtökin taka fram að þau geri aðeins tilraun til að einangra áhrif verðbólgu á skattbyrði raunávöxtunar.
Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts sé almennt hærra á hinum Norðurlöndunum, á meðan ýmiss konar frádráttarliðir og undanþágur dragi úr skattbyrðinni á móti og geri því samanburð flókinn.
„Eftir stendur sú staðreynd að verðbólguskatturinn leggst að jafnaði þyngra á Íslendinga en aðra Norðurlandabúa.“
Samtökin segja almennt ekki æskilegt að skattleggja tekjur eða eignaverðshækkanir sem eiga sér stað vegna verðbólgu þar sem engin verðmætaaukning felst í slíkum breytingum.
Í tekjuskattskerfinu sé aftur á móti tekið tillit til verðbólgu með því að uppfæra persónuafslátt og þrepamörk reglulega í takt við vísitölu neysluverðs.
Engum slíkum leiðréttingum er fyrir að fara þegar kemur að skattlagningu fjármagns að undanskildu frítekjumarki í einhverjum tilvikum.
„Þannig getur skattlagningin, undir ákveðnum kringumstæðum, verið meiri en sem nemur raunávöxtun. Í þeim tilvikum má segja að skattbyrðin sé í reynd óendanleg.“