„Við erum að stíga fyrsta skrefið í því hérna á Farsældartúnssvæðinu, sem er nokkrir hektarar, að koma með fyrstu starfsemina sem tengist málefnum barna hérna,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, um nýja meðferðarheimilið Blönduhlíð sem opnað var í gær á Farsældartúni í Mosfellsbæ.
Í samtali við mbl.is segir Ásmundur að um stóran áfanga sé að ræða sem skipti gríðarlega miklu máli.
„Bæði er þetta mikilvægt til þess að tryggja meðferðarúrræði og ef við skoðum þetta síðan í samspili við heimili sem við vorum að leigja núna í Gunnarsholti og kemur í staðinn fyrir Lækjarbakka sem hefur verið í vandræðum með myglu, að þá skapar þetta miklu betri tækifæri til þess að sinna svona eftirfylgni og geta aðskilið börn með ólíkan vanda þannig það skiptir gríðarlega miklu máli.“
Hann segir einnig að um stóran áfanga sé að ræða þar sem Blönduhlíð sé fyrsta skref í langtímaáætlun sem tengist Farsældartúni en lagt er með að á svæðinu muni rísa ný byggð sem muni hýsa aðila sem veita börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu.
Uppbyggingin mun taka tíma en Ásmundur segist hafa mikla trú á því að ef hægt verður að tengja saman aðila á svæðinu á næstu árum muni það loka gráum svæðum þegar kemur að þjónustu við börn.
Myndi það skipta gríðarlegu máli ef samtöl á milli fólks, meðferðaraðila og þeirra sem starfa í málaflokknum, væru að eiga sér stað á einni einingu og á sama tíma gætu börn og fjölskyldur komið á einn stað til þess að sækja þjónustuna.
Umboðsmaður barna skrifaði bréf til Ásmundar fyrir rúmum tveimur vikum þar sem hún sagði neyðarástand vera í málaflokknum og að kalla þyrfti á tafarlausar aðgerðir.
Segir Ásmundur að opnun Blönduhlíðar sé liður í þeim aðgerðum og að unnið hafi verið að því að ná með heildstæðum hætti utan um meðferðarúrræðin
„En síðan eigum við eftir næsta kafla í þessu ferðalagi sem er úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda sem hefur verið hjá sveitarfélögunum og við höfum verið að þrýsta á að geta lokið samningum um það.“
Segir hann ákveðna hreyfingu hafa verið á málinu fyrir ári sem hafi svo verið frestað í samskiptum fjármálaráðuneytis og sveitarfélaganna.
„Síðan kom tillaga að því núna í september að við ættum að ganga alla leið og klára það að ríkið tæki við þjónustu barna með fjölþættan vanda.“
Segir hann þá vinnu hafa verið í fullum gangi núna í haust og að nálægt hafi komist við að ljúka samningum þegar ríkisstjórnin svo sprakk.
Þá hafi hann verið með á þingmálaskrá breytingar á barnaverndarlögum en að sögn Ásmundar þarf að ramma inn þjónustu við börn með fjölþættan vanda.
„En það bíður fram yfir þingkosningar og sú heildarsýn og samspil á milli þjónustu við börn með fjölþættan vanda og síðan þau meðferðarúrræði sem Barna- og fjölskyldustofa hefur verið með - það er liður í því sem við erum að gera hérna og erum að leggja grunninn að og þar munum við sjá fimm meðferðarúrræði. Við erum búin að hefja forathugun á þeim en getum ekki farið lengra vegna þess að það þarf lagaumgjörðina í kringum það og samninginn við sveitarfélögin.“
Aðeins meira um þróunina á Farsældartúninu. Það verður þá önnur þjónusta og úrræði hér einnig í boði?
„Já og stofnanir og félagasamtök,“ segir Ásmundur og heldur áfram.
„Deiliskipulagið sem verið er að vinna að fyrir þennan reit núna miðast að því að þetta verði ekki eingöngu fyrir meðferðarheimili eða þjónustuúrræði heldur líka fyrir stofnanir í málefnum barna.
Í framkvæmdaáætlun í barnavernd er gert ráð fyrir því að við ætlum að búa til einingu þar sem fleiri stofnanir séu vistaðar saman.“
Segir hann að það geti náð fram samleiðaráhrifum bæði fjárhagslega sem og faglega.
Og skiptir þá engu máli hvaða flokkar fara í stjórn á næstu 5, 10, 15 árum? Mun þetta verkefni halda áfram?
„Það liggur auðvitað ljóst fyrir að ég brenn mjög fyrir að fylgja þessu eftir þannig að ég myndi nú segja að það væri að sá sem að hefur mestan neista fyrir að fylgja þessu eftir væri sá sem þú ert að tala við hér.
En auðvitað bindum við vonir við það og það er markmiðið,“ segir Ásmundur og bætir við að það sé þá líka ástæðan fyrir því að hann sé á leið í þingkosningar aftur.
„Af því að mig langar að vinna í þessum málum. Þetta er það sem fær mig til að vakna á hverjum morgni - staða þessara barna. Þess vegna hafa síðustu mánuðir verið óheyrilega erfiðir.
Vegna þess að þessi börn eru þau börn sem við eigum að efla þjónustu við í íslensku samfélagi og þar liggur mín taug og minn vilji og er ástæðan fyrir því að ég er enn þá í stjórnmálum. Það er ekki til þess að byggja brýr eða malbika vegi.“