Útboðið án samþykkis ráðuneytis

Unnið að endurbótum á Náttúruminjasafni Íslands.
Unnið að endurbótum á Náttúruminjasafni Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullyrðing forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands í Morgunblaðinu í dag um að ráðist hafi verið í útboð á hönnun grunnsýningar í safninu á EES-svæðinu með vitund og vilja ráðuneytisins þrátt fyrir að fjármagn hafi ekki verið fulltryggt er röng. Þetta kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu í kjölfar ummæla forstöðumannsins, Hilmars J. Malmquist, í blaðinu í dag.

„Forstöðumaður NMSÍ hafði hvorki samþykki né umboð frá ráðuneytinu til þess að ráðast í slíkt útboð. Hugmynd um útboð var rædd við ráðuneytið en NMSI fékk ekki samþykki fyrir því. Hefur forstöðumaður ítrekað verið beðinn skriflega um að halda að sér höndum hvað varðar sýningargerð þar sem sá hluti verkefnisins sé ekki fullfjármagnaður,“ segir í tilkynningu ráðuneytis Lilju Alfreðsdóttur.

Þar segir ennfremur að allt verkefnið, flutningur safnsins, endurbætur á húsnæði og hönnun á grunnsýningu, hafi verið brotið niður í verkþætti og fjármögnun forgangsraðað eftir því. Áætluð verklok endurbóta séu í september 2025.

Fjármálin til endurskoðunar

„Fjármögnun á næstu verkþáttum kemur í kjölfarið og hefur forstöðumanni verið gerð grein fyrir því að framkvæmdir og lokafrágangur við nýtt húsnæði séu forgangsverkefni og það sé fullfjármagnað enda lögð áhersla á að klára húsið áður en farið sé í fjármögnun og vinnu við sýningar.

Bendir forstöðumaður á í umræddu viðtali að kostnaðaráætlun sé komin fram yfir samþykkta fjárhæð frá ráðuneytinu. Það er rétt og hefur forstöðumaður ítrekað verið beðinn um að virða kostnaðaráætlun. Er rétt að benda á að innan ráðuneytisins hefur staðið yfir vinna við gagngera endurskoðun á fjármálum NMSÍ vegna ítrekaðrar framúrkeyrslu á kostnaðaráætlun og skorts á samráði NSMÍ við ráðuneytið.

Ráðuneytið vinnur í samræmi við fjárheimildir og lög um opinber fjármál og gerir þær kröfur að allar undirstofnanir og samstarfsaðilar geri slíkt hið sama.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka