Aðeins verið haft samband við eina björgunarsveit

Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir flutning kjörgagna í aftakaveðri krefjast undirbúnings.
Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir flutning kjörgagna í aftakaveðri krefjast undirbúnings. Ljósmynd/Landsbjörg

Ekki hefur verið formlega haft samband við björgunarsveitir á Austfjörðum og Austurlandi, fyrir utan björgunarsveitina á Vopnafirði, varðandi að vera til taks á laugardagskvöld til að aðstoða við að koma kjörgögnum á milli staða.

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Aftakaveðri er spáð á kjördag á Austfjörðum og Austurlandi og viðbúið er að færð spillist. Erfitt gæti því reynst að koma kjörgögnum á milli staða með hefðbundnum hætti til talningar. 

Sagði að ráðstafanir hefðu verið gerðar

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, sagði í samtali við mbl.is í morgun að búið væri að gera ráðstafanir varðandi það að fá björgunarsveitir til aðstoðar.

Jón Þór kannast hins vegar ekki við það að leitað hafi verið til björgunarsveitanna eftir aðstoð, fyrir utan björgunarsveitina á Vopnafirði. Gæti hún þá aðstoðað við að koma kjörgögnum frá Vopnafirði til Akureyrar.

„Svo langt sem ég veit hefur verið haft samband við björgunarsveitina á Vopnafirði til að fá aðstoð þeirra ef á þarf að halda, en við aðra hefur ekki verið talað.“

Betra að vita ef björgunarsveitir eru hluti af plani

Aðspurður hvort það sé ekki skrýtið í ljósi þess hve spáin er slæm, segir Jón Þór að þetta sé aðgerð af því tagi sem krefst undirbúnings. Það muni hins vegar ekki standa á sveitunum að koma til aðstoðar, verði þess óskað.

„Sveitunum á þessu svæði þætti ekkert verra að fá upplýsingar um það fyrirfram ef þær eru hluti af þessu plani þeirra, svo þær geti gert ráðstafanir. Hvaða magn af kjörkössum er þetta, hvaða ökutæki þarf, það er ýmislegt sem þarf að skoða. Það eru ekki allir sem hafa réttindi til að keyra bílana. Það væri ákjósanlegra að það væri hægt að gera ráðstafanir.“

Engin stórhætta yfirvofandi

Hann bendir á fjallvegir á svæðinu séu þekktir fyrir að teppast í hríðarveðri.

„Það þarf að fara yfir tvo fjallvegi sem eru þekktir fyrir að teppast, Fagradal og Fjarðarheiði. Það er spurning hvað verður með Mjóafjörð, hvort það þarf að senda skip eftir kjörgögnum þar,“ segir Jón Þór.

„Þetta er það mikil aðgerð, ef á þarf að halda, að það væri voða gott að vita fyrirfram,“ bætir hann við.

„Það mun ekki standa á okkur að koma til aðstoðar en þetta er ekki kjarnastarfsemi björgunarsveita. Þetta er ekki leit og björgun, það er ekki engin stórhætta yfirvofandi þó kjörgögn komist ekki á milli staða á laugardagskvöldi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka