Þrír sérfræðingar fara yfir aðgerðir eða aðgerðaleysi

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að það þurfi að fara fram …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að það þurfi að fara fram rýni á tímanum frá því óvissustigi almannavarna var lýst yfir, 25. október 2023, og til skipunardags nefndarinnar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið, samkvæmt lögum um almannavarnir, að skipa þriggja manna starfshóp sérfræðinga sem mun framkvæma ytri rýni á aðgerðum eða aðgerðarleysi viðbragðsaðila tengt jarðhræringunum á Reykjanesskaga.

Nefndin verður skipuð Hafsteini Dan Kristjánssyni, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Kjartani Þorkelssyni, fyrrverandi lögreglustjóra Suðurlands og Sóleyju Kaldal, áhættustýringar- og öryggisverkfræðingi. Hafsteinn Dan Kristjánsson verður formaður nefndarinnar. Öll búa þau yfir ólíkri sérfræðiþekkingu sem nýtist til verkefnisins, að því er fram kemur í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins. 

Þá segir, að dómsmálaráðherra hafi lagt áherslu á nauðsyn þess að framkvæma ytri rýni í samræmi við ákvæði almannavarnarlaga.

Hafsteinn Dan Kristjánsson er formaður nefndarinnar.
Hafsteinn Dan Kristjánsson er formaður nefndarinnar. mbl.is/María

Hafa þurft að taka erfiðar og afdrifaríkar ákvarðanir

„Þrátt fyrir að ytri rýni eigi almennt að fara fram eftir að almannavarnastigi hefur verið aflétt þykir rétt vegna þeirrar langvarandi atburðarásar sem nú á sér stað á Reykjanesi, að fram fari rýni á tímanum frá því óvissustigi almannavarna var lýst yfir, 25. október 2023, og til skipunardags nefndarinnar,“ segir í tilkynningunni. 

Bent er á, að vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesskaga hafi viðbragðskerfi almannavarna tekist mánuðum saman á við margvíslegar áskoranir sem ekki sjái fyrir endann á. Í þessu hættuástandi hafi lykilaðilar þurft að taka erfiðar og stundum afdrifaríkar ákvarðanir hratt og örugglega.

Dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að framkvæma ytri …
Dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að framkvæma ytri rýni í samræmi við ákvæði almannavarnarlaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margvíslegar afleiðingar

„Slíkar ákvarðanir kunna að hafa í för með sér margvísleg áhrif á ólíka hagsmuni. Afleiðingar slíkra ákvarðana geta til að mynda haft áhrif á fjárútgjöld úr ríkissjóði, áhrif á réttindi hins almenna borgara til búsetu og atvinnu, áhrif á réttindi atvinnurekenda til atvinnustarfsemi og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga,“ segir í tilkynningunni. 

Lög um almannavarnir mæla fyrir um þrepaskipta rýni á aðgerðum viðbragðsaðila. Samkvæmt því fyrirkomulagi tekur eðli og umfang rýni mið af alvarleika þess ástands sem rýna skal. Í fyrsta lagi er ávallt tryggt að fram fari innri rýni á viðbrögðum í almannavarnaástandi, í öðru lagi fer ytri rýni fram þegar stjórn samhæfingar og stjórnstöðvar telur það nauðsynlegt og í þriðja lagi getur ráðherra óskað eftir skýrslugjöf og ytri rýni, segir enn fremur í tilkynningu ráðuneytisins. 

Þá segir, að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafi framkvæmt innri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila tengt jarðhræringunum á Reykjanesskaga. Óháður sérfræðingur annaðist framkvæmd innri rýninnar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka