„Það er bara búin að vera gríðarlega mikil aukning hjá okkur í dag,“ segir Birna Kristín Einarsdóttir, fulltrúi sýslumannsins á Austurlandi, en þar hafa um 330 manns greitt atkvæði utan kjörfundar.
Segir hún að utankjörfundaratkvæði á Austurlandi séu nú um 1.100 í heildina.
Þá hefur verið boðið upp á auka opnun á Djúpavogi og Borgarfirði eystri og að búið sé að skipa kjörstjóra í Mjóafirði þar sem einnig voru utankjörfundakosningar í dag.
Einnig er verið að bjóða upp á þjónustuna fyrir eldri borgara sem eru í þjónustuíbúðum í Neskaupstað sem treysta sér ekki á kjörstað á laugardaginn.
„Þannig við erum að reyna að þjónusta alla.“
Aðspurð segir hún að um helmingi fleiri utankjörfundaratkvæði séu nú komin í hús miðað við forsetakosningarnar í sumar og að enn sé þó einn dagur eftir.
Og er þetta vegna veðursins sem spáð er fyrir helgina?
„Já, já. Líka mikið fólk bara úr sveitunum sem að býr kannski ekki alveg inni í þéttbýlinu sem að vill bara klára þetta frá og hefur áhyggjur af því að það verði ekki fært og að það verði erfitt að komast á kjörstað.
Þetta er náttúrulega á allt öðrum tíma. Yfirleitt eru kosningar á vorin eða í byrjun sumars. Þannig við erum ekki vön því að standa fyrir þessari áskorun að það gæti verið illfært eða ófært,“ segir Birna og bætir við að lokum.
„En þetta gengur bara ljómandi vel.“