„Bara bull og ekkert annað“

Guðmundur Hinrik Hjaltason, húsasmíðameistari og eigandi jarðarinnar Vesturhópshóla í Húnavatnssýslu, …
Guðmundur Hinrik Hjaltason, húsasmíðameistari og eigandi jarðarinnar Vesturhópshóla í Húnavatnssýslu, er hvumsa yfir umræðu í vikunni um að erlendir auðmenn og heilu fyrirtækin séu nánast að kaupa upp Húnavatnssýslu með miklum ágangi á meðan varla er spurt um hans eigin jörð sem þó er auglýst til sölu. Ljósmynd/Aðsend

„Mér fannst þetta nú svo­lítið fynd­in frétt þarna í gær, sem hljómaði eins og verið væri að selja bara all­ar jarðir í Húna­vatns­sýslu,“ seg­ir Guðmund­ur Hinrik Hjalta­son húsa­smíðameist­ari í sam­tali við mbl.is, en Guðmund­ur hafði sam­band við rit­stjórn­ina til að ræða málið í kjöl­far frétta­flutn­ings.

Hann á sjálf­ur jörðina Vest­ur­hóps­hóla, gamla bújörð og kirkju­stað í Vest­ur-Húna­vatns­sýslu, fædd­ist þar og bjó til tví­tugs. Jörðin, sem er 1.360 hekt­ar­ar, hef­ur nú verið til sölu í hálft annað ár án þess að dregið hafa til tíðinda og kveður Guðmund­ur varla að heitið geti að nokk­ur maður hafi sýnt Vest­ur­hóps­hól­um áhuga þrátt fyr­ir veru­lega mynd­rænt kynn­ing­ar­mynd­skeið á lýðnet­inu sem les­end­ur geta horft á hér.

Vís­ar Guðmund­ur til frétt­ar Stöðvar 2 og Vís­is í gær þar sem sagði af er­lend­um fjár­fest­um og kaupa­héðnum sem byðu marg­falt verð fyr­ir jarðir í Húna­vatns­sýsu, en í Dag­mál­um hér á mbl.is var á mánu­dag­inn enn frem­ur rætt við Steinþór Loga Arn­ars­son, formann Sam­taka ungra bænda, sem kvað ásókn í jarðir hafa auk­ist og dæmi væru um að bankað væri upp á í nafni fjár­sterkra aðila sem kaupa vildu jarðir. Einn viðmæl­andi Vís­is sagði er­lent fyr­ir­tæki hafa áhuga á að kaupa tutt­ugu jarðir, meðal ann­ars með skóg­rækt í huga til að kol­efnis­jafna rekst­ur sinn.

Kirkjan sem Þorlákur Þorláksson, faðir Jóns Þorlákssonar, þingmanns og ráðherra, …
Kirkj­an sem Þor­lák­ur Þor­láks­son, faðir Jóns Þor­láks­son­ar, þing­manns og ráðherra, byggði og vígð var 1879. Ljós­mynd/​Aðsend

Har­ald­ur hring­ur bjó á jörðinni

„Það er varla spurt um mína jörð þannig að þetta er bara bull og ekk­ert annað,“ seg­ir Guðmund­ur sem er ekki með bú­skap á jörð sinni og býr í Reykja­vík. Hún er ekki í ábúð en fjöl­skylda hans held­ur öll­um hús­um á Vest­ur­hóps­hól­um við svo sem glöggt má sjá í mynd­skeiðinu hand­an hlekks­ins hér að ofan.

„Þetta er nú ein­hver flott­asta jörðin í Húna­vatns­sýslu og að það sé verið að kaupa upp jarðir er bara eitt­hvert kosn­inga­bull,“ seg­ir húsa­smíðameist­ar­inn og er innt­ur eft­ir því hvort jörðin Breiðabólstaður sé þarna í ná­grenni, þar sem goðorðsmaður­inn og höfðing­inn Hafliði Más­son bjó á tólftu öld og rit­un á Íslandi hófst vet­ur­inn 1117 – '18 með rit­un Víg­slóða, ákvæðum þjóðveldis­ald­ar­laga um mann­dráp og mein­gerðir, einnig nefnd Hafliðaskrá.

Jörðin ber umferð léttra einkaflugvéla vel og kveðst Guðmundur oft …
Jörðin ber um­ferð léttra einka­flug­véla vel og kveðst Guðmund­ur oft fljúga norður sjálf­ur. Ljós­mynd/​Aðsend

„Hún er sunn­ar í sveit­inni, það eru fimm bæir á milli,“ svar­ar Guðmund­ur af jörð Breiðabólstaðs og nefn­ir aðra merki­lega staðreynd. „Har­ald­ur hring­ur land­námsmaður byggði bæ á Vest­ur­hóps­hól­um eft­ir að hafa haft vet­ur­setu á stað sem nefnd­ur var Hrings­staðir beint á móti Vest­ur­hóps­hól­um. Um þann stað sjást eng­in merki leng­ur,“ seg­ir hann.

Jón Þor­láks­son og kirkju­smíðin

Sé mark tak­andi á Sturlu­bók, elsta hand­riti Land­námu, var Har­ald­ur hring­ur maður ætt­stór og kom „skipi sínu í Vest­ur­hóp og sat hinn fyrsta vet­ur þar nær, sem hann hafði lent og nú heita Hrings­staðir. Hann nam Vatns­nes allt utan til Ambátt­ar­ár fyr­ir vest­an, en fyr­ir aust­an inn til Þver­ár og þar yfir um þvert til Bjarga­óss og allt þeim meg­in bjarga út til sjóvar, og [bjó] að Hól­um.“

Guðmund­ur húsa­smíðameist­ari reyn­ir því að selja fornt höfðingj­a­set­ur og geng­ur hvorki né rek­ur.

Bæjarhúsin séð úr fjarska. Þeim halda fjölskyldur Guðmundar og systur …
Bæj­ar­hús­in séð úr fjarska. Þeim halda fjöl­skyld­ur Guðmund­ar og syst­ur hans við og máluðu hús­in árið 2019. Ljós­mynd/​Aðsend

„For­eldr­ar mín­ir bjuggu þarna og afi og amma þar á und­an, en þar á und­an reynd­ar fædd­ist þarna fyrsti formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, Jón Þor­láks­son, og Þor­lák­ur pabbi hans smíðaði kirkj­una á jörðinni,“ seg­ir Guðmund­ur, „og ég fór nú að hugsa það ein­hvern tím­ann að þessi kirkja er vígð 1879, rétt áður en all­ir fóru að flýja land [til vest­ur­heims], þá fór hann bara að smíða kirkju þannig að hann hef­ur verið svaka­lega dug­leg­ur kall­inn,“ seg­ir hann enn frem­ur, en í mynd­skeiðinu að ofan má enn frem­ur sjá kirkj­una að inn­an sem utan og virðist hún í góðu ásig­komu­lagi.

Og hef­ur eng­inn einu sinni komið að skoða?

„Jú, en þeir eru ótrú­lega fáir. Ég hélt að þessi jörð færi á nó­inu,“ svar­ar Guðmund­ur, „ég held þessu vel við, öll fjöl­skyld­an mín og syst­ur minn­ar, við máluðum til dæm­is allt þarna 2019. Þannig að mér fannst nú bara fyndið að heyra þess­ar frétt­ir,“ seg­ir Guðmund­ur Hinrik Hjalta­son, húsa­smíðameist­ari og jarðar­eig­andi, um umræðu í vik­unni um eft­ir­spurn og til­boð er hlaupa á marg­földu markaðsverði jarðnæðis norðan heiða.

„Upp við fossa“, hin rómantíska sveitaskáldsaga Jóns Stefánssonar, öðru nafni …
„Upp við fossa“, hin róm­an­tíska sveita­skáld­saga Jóns Stef­áns­son­ar, öðru nafni Þorgils gjallanda, kem­ur hér upp í hug­ann. Hún kom út árið 1902 og varð þegar mik­ill úlfaþytur um enda ritið talið harðkjarnaklám fyr­ir 120 árum og voðinn vís kæm­ust ung­menni í bók­ina. Ljós­mynd/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert