Dagur sætir kæru

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri hefur verið kærður fyrir tilraun …
Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri hefur verið kærður fyrir tilraun til að afvegaleiða kjósendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Með vísan til skrifa Dags B. Eggertssonar á facebook síðu Baldvins Jónssonar legg ég fram kæru á hendur honum,“ skrifar Lúðvík Lúðvíksson, kærandi í máli á hendur Degi B. Eggertssyni fyrrverandi borgarstjóra vegna ummæla Dags á téðri Facebook-síðu Baldvins sem er tengdafaðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.

Kveður Lúðvík Dag þar hafa skrifað orðrétt – og vísar enn fremur í frétt Vísis af ummælunum – „Já, hvet alla kjósendur Sjálfstæðisflokksins til að strika yfir mig.“

Kæruskjal Lúðvíks Lúðvíkssonar er dagsett í dag.
Kæruskjal Lúðvíks Lúðvíkssonar er dagsett í dag. Ljósmynd/Aðsend

Með ívitnuðum ummælum hafi Dagur, sem að mati kæranda er „velmenntaður læknir og með áratugareynslu af stjórnmálum“, brotið gegn því ákvæði kosningalaga er býður að sektum varði, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar, en áskilnað þennan er að finna í h-lið 1. málsgreinar 136. greinar núgildandi kosningalaga frá árinu 2021.

Verði látinn sæta ábyrgð

Kveðst kærandi telja það einsýnt að ummæli Dags séu til þess fallin að afvegaleiða kjósendur til að ógilda kjörseðil sinn í kosningunum en það gerist merki kjósandi við fleiri en einn lista, merki við einn lista en striki jafnframt yfir frambjóðendur annarra flokka eða með öðrum hætti velji eitthvað eða hafni því undir fleiri listabókstöfum en einum.

„Degi megi vera fullljóst í ljósi reynslu sinnar í stjórnmálum að orð hans verði skoðuð sem villandi kosningaleiðbeiningar,“ skrifar Lúðvík í kæru sinni sem hann sendir héraðssaksóknara en Ástríður Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri landskjörstjórnar kvittar ásamt móttökuaðila hjá saksóknara fyrir móttöku kærunnar.

Slær Lúðvík botninn í kæruskjal sitt, sem dagsett er í dag, fimmtudag, með svofelldum orðum: „Óska ég eftir að héraðssaksóknari taki kæruna til meðferðar þannig að Dagur B. Eggertsson verði látinn sæta ábyrgð á framangreindum orðum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert