Fleiri að kjósa utan kjörfundar en í sumar

Yfir 33.000 atkvæði hafa nú verið greidd utan kjörfundar.
Yfir 33.000 atkvæði hafa nú verið greidd utan kjörfundar. Morgunblaðið/Eggert

Yfir 33.000 hafa greitt atkvæði utan kjörfundar fyrir komandi alþingiskosningar. Á landsvísu eru nú fleiri að kjósa utan kjörfundar en í forsetakosningunum í sumar ef miðað er við hve langt er til kosninga. 

Þetta segir Einar Jónsson, staðgengill sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.

Tæplega 20.000 greitt atkvæði á höfuðborgarsvæðinu

Nefnir hann að nú hafi 19.360 atkvæði verið greidd á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hafa 1.142 atkvæði verið greidd á Vesturlandi og 608 á Vestfjörðum.

Á Norðurlandi vestra hafa 671 atkvæði verið greidd og á Norðurlandi eystra eru þau 3.091.

988 atkvæði hafa verið greidd á Austurlandi, 1.884 á Suðurlandi og 1.422 á Suðurnesjum.

Þá hafa 414 atkvæði verið greidd í Vestmannaeyjum.

Meiri aðsókn en búist var við

Segir Einar að síðustu dagana fyrir kosningar sjáist oft aukning á aðsókn í utankjörfundarkosningar og að sú aukning hafi farið að sjást á þriðjudagsmorgni. Hún hafi hins vegar verið meiri en búist var við.

Nefnir hann að á höfuðborgarsvæðinu hafi, framan að, færri greitt atkvæði utan kjörfundar heldur en í forsetakosningunum í sumar en að það sé nú farið að dragast saman vegna aukningar síðustu daga og sé nú aðeins örfáum prósentum færri.

Hins vegar hafi á landsvísu fleiri greitt atkvæði utan kjörfundar heldur en í forsetakosningunum ef miðað er við hve langur tími er til kosninga. 

Þess ber að geta að um 42.000 manns kusu utan kjörfundar í forsetakosningunum í sumar. 

Líklegt að veður hafi áhrif

Aðspurður segir hann það mjög líklegt að það gæti verið vegna veðurs, en varað hefur verið við leiðindaveðri um helgina sem beinist þá, þessa stundina, sérstaklega að Austurlandi.

„Það er eflaust mjög líklegt að fólk sé að hugsa um það [veðrið] af því að aukningin er svona meiri heldur en vanalega þessa daga fyrir kosningar, að fólk sé að koma fyrr og kjósa utan kjörfundar.“

Tekur Einar fram að tæplega 3.500 hafi greitt atkvæði á höfuðborgarsvæði í gær en hægt er að gera það í Holtagörðum þar sem opið verður til 22 í kvöld og á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka