Karaoke og sprell – Hér verða kosningavökurnar

Hér má sjá ljósmynd frá kosningavöku Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands.
Hér má sjá ljósmynd frá kosningavöku Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn fylgifiskur kjördags eru kosningavökur stjórnmálaflokkanna. Á þeim er oft frábær stemning en einnig stundum súr stemning, en það ræðst af gengi flokkanna. mbl.is hefur tekið saman hvar kosningavökur flokkanna verða á höfuðborgarsvæðinu.

Sjálfstæðisflokkurinn verður með sína kosningavöku í Sjálfstæðissalnum, einnig þekktur sem NASA, á Thorvaldsensstræti 2. Áætlað er að fjör færist í leikinn um klukkan 22 að sögn kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Sósíalistaflokkurinn bindur vonir við það að komast inn á þing og flokksfélagar verða með kosningavöku sína í Vorstjörnunni – Alþýðuhúsi, að Bolholti 6.

Samfylkingin verður með kosningavöku sína í Kolaportinu og gert er ráð fyrir því að hús opni rétt fyrir klukkan 21 um kvöldið.

Flokkur fólksins verður með kosningavöku sína í Björginni á neðri hæð Grafarvogskirkju. Áætlað er að opna tímanlega en nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir.

Framsókn verður með kosningavöku sína á Oche í Kringlunni og mun sú kosningavaka hefjast klukkan 21.30.

Miðflokkurinn verður með sína kosningavöku í Valsheimilinu og hús opnar klukkan 21.

Viðreisn verður með sína kosningavöku í Gyllta salnum á Hótel Borg og mun hús opna klukkan 21. Kosningavakan verður því í næsta nágrenni við kosningavöku Sjálfstæðisflokksins. 

Lýðræðisflokkurinn verður með kosningavöku á kosningaskrifstofu sinni í Faxafeni 10 og húsið opnar á milli klukkan 20-21. Kosningastjórinn, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, segir að það verði karaoke og „sprell“.

Píratar verða með sína kosningavöku á Dass á Vegamótastíg og áætlað er að húsið opni um klukkan 21.

Vinstri græn verða í Iðnó og húsið opnar klukkan 21.

Ekki náðist í Ábyrga framtíð við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka