Lögreglan hefur rannsókn í tengslum við Gnúpsmálið

Lögregla hefur tekið til rannsóknar meint ljúgvitni tveggja vitna í málaferlum félagsins Lyfjablóms, sem áður hét Björn Hallgrímsson ehf., gegn fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi ráðherra. 

Í tilkynningu upplýsir framkvæmdastjóri Lyfjablóms, Björn Thorsteinsson, að lögreglan hafi upplýst félagið að lögreglurannsókn hafi verið opnuð gagnvart þeim Helga F. Arnarsyni, endurskoðanda hjá KPMG, og Stefáni Bergssyni, fyrrverandi endurskoðanda hjá PwC, en Stefán starfaði fyrir Lyfjablóm áður fyrr.

Björn segir í yfirlýsingu að þetta sé gert vegna rökstudds gruns um að mennirnir hafi borið ljúgvitni fyrir dómi, en Lyfjablóm hefur staðið í umfangsmiklu málaferlum meðal annars gegn þeim Þórði og Sólveigu.

Sólveig er ekkja Kristins Björnssonar, en hann og þrjár systur hans voru eigendur að fjölskyldufyrirtækinu Björn Hallgrímsson ehf., sem var eigandi að tæplega helmingshlut í fjárfestingafélaginu Gnúpi og eitt stærsta fjárfestingafélag landsins fyrir hrun. Var Kristinn í forsvari fyrir fjölskyldufyrirtækið.

Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms ásamt Birni Thorsteinssyni, eiganda félagsins …
Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms ásamt Birni Thorsteinssyni, eiganda félagsins í dómsal í einu af dómsmálum félagsins. mbl.is/Þorsteinn

Björn bendir á að Helgi sé fyrrverandi persónulegur endurskoðandi Þórðar Más Jóhannessonar, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Festi hf. og fyrrverandi forstjóri fjárfestingarfélagsins Gnúps hf.. Stefán starfaði sem endurskoðandi og bókari fyrir Lyfjablóm.

Björn segir að mennirnir hafi borið vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dómsmáli Lyfjablóms gegn Þórði Má og Sólveigu, sem er fyrrverandi dómsmálaráðherra, í hinu svokallaða Gnúpsmáli. Björn bendir á að framburðir þeirra hafi m.a. átt þátt í sýknu í málinu árið 2019 og svo aftur árið 2022.

Þá segir Björn að Lyfjablóm muni senda frekari kærur til lögreglu á næstu dögum gegn Þórði Má „vegna rökstudds gruns um ljúgvitni fyrir dómi sem og vegna rökstudds gruns um brot gegn 162. gr. almennra hegningarlaga.“

Gnúpsmálið bíður nú dómsuppkvaðningar í Landsrétti þar sem það var flutt fyrir nokkrum vikum. Áður hafði héraðsdómur sýknað Þórð og Sólveigu, en athygli vakti í Landsrétti að allir dómarar Landsréttar voru taldir vanhæfir til að dæma í málinu vegna starfa dómarans Aðalsteins E. Jónassonar fyrir Gnúp á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert