„Þetta hafðist að lokum og við gengum mjög sátt frá samningaborðinu í nótt,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, en samningar tókust í kjaradeilu lækna og ríkisins og á öðrum tímanum í nótt.
Steinunn segir að í samningum felist í stórum dráttum betri samningur um vinnutíma með öllum þeim breytingum sem í því fylgja.
„Þetta er samningur sem hefur verið gerður fyrir aðrar heilbrigðisstéttir aðrar en okkur og við erum mjög fegin að hafa náð þeim áfanga,“ segir Steinunn.
Steinunn segir að í samningunum sé meðal annars stytting vinnuvikunnar niður í 36 tíma fyrir alla lækna, eðlilegra vaktafyrirkomulag og eðlilegri greiðslur fyrir mismunandi álag á vöktum.
„Við lágum mikið yfir þessum ólíku upplifun lækna á landsbyggðinni, á sjúkrahúsum og heilsugæslunni og leiðarljósið hjá okkur allan tímann var að bæta vinnuumhverfið. Það er það sem læknar hafa kvartað mest undan,“ segir hún.
Í því samhengi nefnir hún mikið álag og óhóflegt magn vinnu og með nýja samningum eigi að koma til móts við það en á sama tíma tryggja góða innleiðingu svo þjónustan haldist góð og vonandi betri.
„Við vonum að samningurinn muni verða aðlaðandi fyrir fólk sem hefur kosið að ílendast erlendis og stóra markmiðið er að ná inn fleiri læknum,“ segir Steinunn.
Er einhver hópur lækna sem samningurinn mun nýtast betur fyrir?
„Í rauninni ekki. Við reyndum að koma til móts við alla hópa. Það var tímafrekt og að hluta til var það ástæðan fyrir því að dróst að ganga frá samningnum á lokametrunum. Við vildum horfa í allar mögulegar útfærslur á vinnu lækna því við erum mjög ólík innbyrðis. Við erum allt frá fólki sem vinnur bara dagvinnu yfir í hreinræktað vaktavinnufólk eins og á bráðamóttökunni,“ segir hún.
Hún segir að allan tímann hafi samninganefndin haft það í huga að hleypa ekki upp einhvers konar verðbólguhvetjandi áhrifum varðandi launalið samningsins og að langstærsta málið hafi verið að ná fram betri vinnutíma og draga úr óhóflegu álagi.
Steinunn segir að eftir helgina hefjist vinna við að kynna samninginn fyrir félagsfólki.
„Þetta eru töluverðar breytingar og það er mikilvægt að fólk nái vel utan um þær. Við verðum með stóran fund á mánudagskvöldið og svo er stefnt á annað hvort að fara eitthvað út fyrir Reykjavík eða halda fjarfundi til að kynna samninginn. Síðan verður atkvæðagreiðsla í kjölfarið.
Hún segist bjartsýn á að samningurinn fari vel í sína félagsmenn og segir að hann sé mikið framfaraskref fyrir lækna.