Ný könnun: Baráttan á toppnum harðnar

Formenn flokkanna sem mælast með mesta fylgið samkvæmt könnun Prósents …
Formenn flokkanna sem mælast með mesta fylgið samkvæmt könnun Prósents fyrir Morgunblaðið. Samsett mynd

Samfylkingin tekur forystuna í nýrri könnun Prósents fyrir Morgunblaðið nú þegar aðeins tveir dagar eru fram að kosningum.

Könnunin var kynnt rétt í þessu í kappræðum leiðtoga flokkanna sem streymt er frá í beinni útsendingu á mbl.is.

Sjálfstæðisflokkur tekur fram úr Miðflokki

Baráttan um efstu sætin er að harðna.

Samfylkingin bætir við sig 3,5 prósentustigum frá síðustu könnun og mælist með 21,8 prósenta fylgi og tekur þar með fram úr Viðreisn sem tapar 4,4 prósentustigum og mælist með 17,6 prósenta fylgi. 

Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 3,2 prósentustigum og mælist nú með þriðja mesta fylgið, eða 14,7%. Hefur hann þar með tekið fram úr Miðflokknum sem tapar 1,5 prósentustigi og mælist með 12%, eða fjórða mesta fylgið.

Framsókn mælist inni á þingi

Flokkur fólksins heldur áfram að sækja í sig veðrið og mælist nú með 11,2 prósenta fylgi og er samkvæmt könnuninni fimmti stærsti flokkurinn.

Fylgi Framsóknarflokksins tekur sömuleiðis smá stökk milli kannana og mælist nú 6,4 prósent og bætir þar með 2 prósentustigum við sig. Flokkurinn mældist út af þingi í síðustu könnun.

Sósíalistar og Píratar mælast með svipað fylgi eða 5,8 prósent og 5,5 prósent. Fylgi beggja flokka lækkar lítillega milli kannana.

VG, Lýðræðisflokkurinn og Ábyrg framtíð reka lestina

Fylgi Vinstri grænna hækkar um 0,4 prósentustig eða upp í 3,4 prósent, sem er ekki nóg til að flokkurinn nái manni inn á þing.

Aðeins Lýðræðisflokkurinn og Ábyrg framtíð mælast með lægra fylgi eða 1,2 prósent og 0,4 prósent.

Gögnum var safnað í gegnum netkönnun frá 25. til 28. nóvember. Úrtakið var 4.500 einstaklingar en alls svöruðu 2.379 þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert