Ríkissaksóknari vill mál Steinþórs fyrir Hæstarétt

Embætti ríkissaksóknara hefur óskað eftir áfrýjunarleyfi í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða.
Embætti ríkissaksóknara hefur óskað eftir áfrýjunarleyfi í Ólafsfjarðarmálinu svokallaða. Samsett mynd

Embætti ríkissaksóknara vill að Hæstiréttur hafi síðasta orðið þegar kemur að máli Steinþórs Einarssonar sem var sýknaður í Landsétti í lok október af ákæru um manndráp á Ólafsfirði í október 2022. Hann hafði áður verið dæmdur í átta ára fangelsi í héraðsdómi í janúar.

Í skriflegu svari ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is kemur fram að óskað hafi verið eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. „Ríkissaksóknari hefur sent Hæstarétti beiðni um áfrýjunarleyfi í málinu,“ segir í svarinu. Mun þar væntanlega reyna á hvað falli undir sjálfsvörn samkvæmt lögum, en Steinþór var sýknaður á þeim forsendum.

Landsréttur: Steinþór var að verjast ólögmætri árás

Fyrir Landsrétti krafðist ákæruvaldið þess að dómur yfir Steinþóri yrði þyngdur, en í dómi héraðsdóms var Steinþór fund­inn sek­ur um að hafa orðið Tóm­asi Waag­fjörð að bana fyr­ir tveim­ur árum með því að stinga hann tvisvar sinn­um í vinstri síðu með hníf.

Niðurstaða Landsréttar var að Steinþór hafi orðið fyrir ólögmætri árás sem honum hafi verið rétt að verjast eða afstýra. Telur Landsréttur að Tómas hafi átt upptökin að átökum þeirra og að um ofsafengna og lífshættulega árás hafi verið að ræða af hálfu Tómasar.

Þá var einnig tekið til­lit til skýrslu þess er fram­kvæmdi krufn­ingu Tóm­as­ar, auk annarra gagna um stefnu og lög­un stungusár­anna og þótti á hinn bóg­inn hafið yfir skyn­sam­leg­an vafa að Steinþór hefði náð taki á hnífn­um meðan á átök­un­um stóð og beint hon­um í síðu A í tvígang.

Seg­ir í dóm­um að hann hefði með því beitt vörn­um sem voru aug­sýni­lega hættu­legri en árás­in og það tjón, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til og var því ekki fall­ist á að 1. mgr. 12. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga gæti átt við um at­vik máls­ins.

Þrátt fyr­ir það var lagt til grund­vall­ar að árás­in hefði enn staðið yfir þegar hníf­ur­inn stakkst tvisvar í síðu Tóm­as­ar.

Sagði hlutina hafa gerst mjög hratt

Auk dóms­ins í héraði var Steinþór dæmd­ur til að greiða  tveim­ur ólögráða börn­um Tóm­asar sex millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur hvoru um sig og skaðabæt­ur upp á 6,6 millj­ón­ir ann­ars veg­ar og 4,4 hins veg­ar. Sem fyrr segir sýknaði Landsréttur hann af þessu.

Kvöldið af­drifa­ríka kom til átaka á milli Tóm­as­ar og Steinþórs er Tóm­as krafðist þess að eig­in­kona sín, sem var æsku­vin­kona Steinþórs, snéri aft­ur á heim­ili þeirra aðfaranótt 3. októ­ber 2022 á Ólafs­firði. Hjón­in höfðu átt í storma­sömu sam­bandi.

Steinþór neitaði að hafa stungið Tóm­as vís­vit­andi með hníf tvisvar. Við aðalmeðferð máls­ins fyr­ir Lands­rétti í byrj­un mánaðar sagði Steinþór að hlut­irn­ir hefðu gerst mjög hratt og það hefði komið hon­um mjög á óvart að Tóm­as hefði látið lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert