„Síðasti áfanginn er oft ansi drjúgur“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hún var seinleg og löng heimreiðin. Síðasti áfanginn er oft ansi drjúgur en þetta hafðist að lokum.“

Þetta segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari við mbl.is en á öðrum tímanum í nótt var skrifað undir nýjan kjarasamning milli lækna og ríkisins í Karphúsinu.

Ástráður segir að leiðin að samningum deiluaðila hafi í raun og veru gengið snurðulaust fyrir sig en menn vanmeti alltaf hvað lokametrarnir geti verið seinlegir. 

Víðtækar breytingar

„Þetta eru víðtækar breytingar á kjarasamningi og það er svo margt sem þarf að huga að sem tekur sinn tíma,“ segir Ástráður.

Spurður hvað felist í samningnum segir Ástráður:

„Það voru gerðar umfangsmiklar breytingar á launamyndunarkerfinu og vinnutímakerfinu og ein af stóru breytingum er sú að það er verið að innleiða betri vinnutíma fyrir lækna eins og fyrir aðrar starfsstéttir á almenna og opinbera markaði sem í sjálfu sér er mjög mikil breyting,“ segir Ástráður.

Hann segir að fyrir lækna sé það meiri bylting heldur en fyrir flesta aðra enda sé vinnutími þeirra kannski ekki eins og hjá öðru fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert